Viðskipti innlent

Stórskipahöfn í Nuuk markar þáttaskil hjá Grænlendingum

Kristján Már Unnarsson skrifar
Grænlendingar fá sína fyrstu stórskipahöfn í sumar en hún er talin marka þáttaskil fyrir atvinnulíf landsins. Íslendingar hafa gegnt lykilhlutverki í hönnun og smíði hafnarinnar. Í fréttum Stöðvar 2 var sýnt frá framkvæmdum í Nuuk. 

Þróun atvinnulífs í Nuuk líður fyrir þrengslin í gömlu höfninni. Þar ægir saman fiskiskipum af öllum stærðum og gerðum. Samtímis þarf að afgreiða flutningaskipin, bæði þau sem fara á innanlandshafnir og þau sem koma frá Álaborg í Danmörku og það sárvantar pláss fyrir skemmtiferðaskip.

En nú sjá Grænlendingar fram á byltingu. Ný gámahöfn er að verða tilbúin og þar skipar íslensk verkfræðiþekking stóran sess. Efla hannaði byggingar og Mannvit annast eftirlit.

Aðalverktakar eru danska félagið Per Aarsleff, með hafnarbakka, en dótturfélag þess, Ístak, sér um húsbyggingar. Þarna starfa einnig íslenskir undirverktakar, eins og málarar og plötusmiðir. Þá annast borpramminn Þrymur boranir vegna sprenginga.

„Það eru Íslendingar sem eru uppistaðan í byggingavinnunni og síðan að hluta til í jarðvinnunni líka. Til dæmis öll stjórnin í byggingunum er í höndum Íslendinga,“ segir Jón Ingi Georgsson, tæknifræðingur hjá Ístaki, sem titlaður er framleiðslustjóri bygginga á svæðinu. 

Verkkaupi er hafnarfélag í eigu landstjórnar Grænlands, Sikuki, og þar er Íslendingur varaformaður stjórnar, Haukur Óskarsson. Mest hafa um 60 Íslendingar starfað við hafnargerðina en þeim hefur nú fækkað niður í 20 til 30.

Jón Ingi segir verkið hafa gengið þokkalega. Óvæntir þættir hafi helst komið upp við sprengingar fyrir utan en annað hafi gengið eins og við mátti búast.

Gömlu hafnarbakkarnir taka aðeins við smærri flutningaskipum en með nýju gámahöfninni geta Grænlendingar sagt að þeir eigi stórskipahöfn. Áætlað er að nýja höfnin verði tekin í notkun í byrjun júlí í sumar.


Tengdar fréttir

Verkþekking Íslendinga byggir upp innviði Grænlands

Virkjunarframkvæmdir Ístaks, sem nú standa yfir við Diskóflóa á Grænlandi, skila 6-8 milljarða króna tekjum til íslenskra fyrirtækja. Íslensk verkþekking byggir um leið upp innviði Grænlands og segir orkumálastjóri landsins smíði vatnsaflsstöðva hafa gríðarlega þýðingu. Þetta kom fram í þættinum Ísland í dag á Stöð 2 í kvöld, þeim síðari um störf Íslendinga á Grænlandi, en sá fyrri var í gærkvöldi. Virkjunin við Ilulissat telst kannski ekki stór á íslenskan mælikvarða, hún verður 22,5 megavött eða um fjórðungur af stærð Búðarhálsvirkjunar, sem nú er í smíðum.

Stærsta farþegaskipið um norðvesturleiðina

Siglingin markar þáttaskil í sjóferðasögu mannkyns því aldrei fyrr hefur svo stórt farþegaskip siglt þessa leið um heimsskautssvæði norðurslóða.

Gujo byggir upp grænlenska þjóð

Íslendingur sem búið hefur á Grænlandi í 46 ár segir að það taki tíma að byggja upp þjóð úr fátækt og drykkju.

Íslendingar í klakahöll undir Grænlandsjökli

Virkjun sem Ístak er að smíða á Grænlandi við Diskóflóa lengst norðan heimskautsbaugs er stærsta verkefni í fjörutíu ára sögu fyrirtækisins. Þar er sennilega sú Íslendinganýlenda sem fjærst er öðrum byggðum bólum í sannkallaðri klakahöll við bæinn Ilulissat. Fyrri reynsla Ístaksmanna af smíði virkjana á Grænlandi réð miklu þegar Orkustofnun Grænlands fól þeim einnig þetta tólf milljarða króna verk, þótt þeir ættu ekki lægsta boð.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.