Erlent

„Ég er al­gjör­lega ó­sam­mála þessari niður­stöðu“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Boris Johnson í New York í gær þar sem hann tekur þátt í allsherjarþingi og loftslagsfundi Sameinuðu þjóðanna.
Boris Johnson í New York í gær þar sem hann tekur þátt í allsherjarþingi og loftslagsfundi Sameinuðu þjóðanna. vísir/Getty
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands og formaður Íhaldsflokksins, kveðst algjörlega ósammála þeirri niðurstöðu hæstaréttar landsins að þingfrestun hans nú í aðdraganda Brexit hafi verið ólögleg.

Þetta sagði Johnson við fjölmiðla í New York í morgun en hann er staddur vegna allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna.

„Ég er algjörlega ósammála þessari niðurstöðu hæstaréttar. Ég ber mikla virðingu fyrir dómskerfinu okkar en ég tel að þetta hafi verið röng niðurstaða,“ sagði Johnson.

Sagði hann þingfrestun hafa verið notaða um aldir án þess að gripið væri inn í ferlið með þessum hætti.



„En það sem er mikilvægara er að það leikur enginn vafi á því að það er fjöldi fólks sem vill tefja Brexit. Það er fullt af fólki sem vill einfaldlega koma í veg fyrir að Bretland gangi úr Evrópusambandinu,“ sagði Johnson sem vildi ekki meina að hann ætti nú ekki aðra möguleika en að fresta Brexit fram yfir 31. október sem hann hefur hingað til alls ekki viljað gera.

 

„Eins og lögin eru núna þá fer Bretland úr ESB þann 31. október, sama hvað. En það sem er spennandi fyrir okkur núna er að ná góðum samningi og það er það sem við erum að vinna í. Það verkefni verður ekki auðveldara með þessu sem er í gangi á þinginu eða fyrir dómstólum,“ sagði Johnson.

Heimildir Sky-fréttastofunnar herma að Johnson hyggist ekki segja af sér en hann mun halda aftur til London í dag eftir að hann hefur flutt ræðu í New York.

Þá mun ríkisstjórnin koma saman til fundar en John Bercow, forseti neðri deildar breska þingsins, hefur kallað þingið saman á morgun.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Tengdar fréttir

Hæstiréttur tekur mál gegn Johnson fyrir

Hæstiréttur Englands tekur í dag fyrir mál gegn Boris Johnson forsætisráðherra þar sem því er haldið fram að hann hafi brotið lög þegar hann fékk Englandsdrottningu til að samþykkja að hlé yrði gert á störfum breska þingsins nú rétt fyrir Brexit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×