Erlent

Þingfrestun Boris dæmd ólögleg

Samúel Karl Ólason skrifar
Ákvörðun Johnson um að fresta þingi í rúman mánuði í aðdraganda fyrirhugaðrar útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu 31. október hefur verið hitamál í breskum stjórnmálum undanfarna daga og vikur.
Ákvörðun Johnson um að fresta þingi í rúman mánuði í aðdraganda fyrirhugaðrar útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu 31. október hefur verið hitamál í breskum stjórnmálum undanfarna daga og vikur. AP/Matt Dunham
Hæstiréttur Bretlands segir þingfrestun Boris Johnson, forsætisráðherra, í aðdraganda Brexit hafa verið ólöglega. Þingið mun líklega koma saman aftur í dag. Það liggur þó ekki fyrir enn. John Bercow, forseti þingins, segir að neðri deild þingsins verði að koma saman hið snarasta og ætlar hann að ræða við leiðtoga þingflokka sem fyrst.

Uppfært: Bercow hefur kallað þingið saman í fyrramálið (miðvikudag).

Brenda Hale, forseti Hæstaréttar, sagði alla ellefu dómara Hæstaréttar hafa verið sammála um að dómurinn mætti taka málið fyrir og einnig verið sammála um niðurstöðuna. Hún sagði það vald forsætisráðherra að fresta þingi vera takmörkunum háð og slík ákvörðun væri ólögleg ef henni væri ætlað að koma í veg fyrir stjórnarskrárbundin störf þingsins.

Ákvörðun Johnson um að fresta þingi í rúman mánuði í aðdraganda fyrirhugaðrar útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu 31. október hefur verið hitamál í breskum stjórnmálum undanfarna daga og vikur. Johnson hefur verið sakaður um „valdarán“. Honum gangi það til að koma í veg fyrir að þingið geti komið í veg fyrir að hann dragi Breta úr ESB án útgöngusamnings.

Formlega séð er það drottnigin sem hefur vald til að fresta þingi en það gerir hún samkvæmt venju að ráði forsætisráðherra. Johnson vísaði til þess að það væri alvanalegt að ný ríkisstjórn frestaði þingi þegar hún tæki við og hún fengi tækifæri til að lýsa stefnu sinni við upphaf nýs þings.

Fyrr í mánuðinum úrskurðaði skoskur dómstóll að þingfrestunin hefði verið ólögmæt og að Johnson hafi reynt að blekkja drottninguna.Sjá einnig: Johnson neitar því að hafa logið að drottningunniRíkisstjórn Johnsons hefur þegar gefið það út að hún muni una niðurstöðu Hæstaréttar en Johnson, sem staddur er á þingi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál, hefur þó ekki viljað útiloka að hann muni einfaldlega reyna að fresta þingi á nýjan leik, verði það kallað saman. Ekki er víst hvort hann geti það og hvort drottningin muni fylgja ráði hans, reyni hann það. Úrskurðurinn þýðir í raun að forsætisráðherrann laug að drottningunni.

Johnson hefur ekki gefið út hvort hann ætli að segja af sér. Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, og Jo Swinson, leiðtogi Frjálslyndra Demókrata, hafa kallað eftir afsögn Johnson.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.