Erlent

Milda dóminn yfir táningnum sem myrti Aleshu MacPhail

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Aaron Thomas Campbell má sjá til vinstri á mynd. Fórnarlamb hans, hin sex ára Alesha MacPhail, er til hægri á mynd.
Aaron Thomas Campbell má sjá til vinstri á mynd. Fórnarlamb hans, hin sex ára Alesha MacPhail, er til hægri á mynd. Mynd/Samsett
Dómur yfir Aaron Campbell, unglingspiltinum sem nauðgaði og myrti hina sex ára Aleshu MacPhail, var í dag styttur úr 27 árum í 24. Dómnum var áfrýjað í ágúst.

Málið vakti mikinn óhug á Bretlandseyjum á sínum tíma en Alesha fannst látin í rústum gistiheimilis á skosku eyjunni Bute í fyrrasumar.

Sjá einnig: Játaði loks morðið á Aleshu og dæmdur í lífstíðarfangelsi

Campbell var handtekinn þá um sumarið grunaður um að hafa tekið Aleshu úr rúmi hennar, nauðgað henni og loks myrt hana. Hann var svo fundinn sekur um morðið og nauðgunina í febrúar síðastliðnum. Pilturinn var að lokum dæmdur í lífstíðarfangelsi en í því fólst að hann gæti ekki sótt um reynslulausn fyrr en að lokinni 27 ára afplánun.

Í dag komust þrír dómarar við hæstarétt í Glasgow hins vegar að þeirri niðurstöðu að dómurinn skyldi styttur um þrjú ár. Afplánun miðast því nú við að minnsta kosti 24 ár. Ákvörðun dómaranna byggir á því að Campbell hafi aðeins verið sextán ára þegar hann framdi morðið, að því er fram kemur í frétt Sky-fréttastofunnar.

Campbell hefur verið lýst sem „vægðarlausum og hættulegum einstaklingi“. Þá þótti hann hafa sýnt af sér ótrúlegan hroka og „stórkostlegan skort á iðrun“ við réttarhöldin, að því er fram kom í máli dómarans sem kvað upp dóminn yfir honum á sínum tíma.

Áður hafði Campbell haldið því fram að hann hefði aldrei hitt Aleshu og sakaði kærustu föður hennar, hina átján ára Toni MacLachlan, um morðið. Hún reyndist saklaus.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×