Erlent

Skutu eldflaugum á loft eftir að hafa kallað eftir viðræðum

Samúel Karl Ólason skrifar
Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu.
Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu. AP/KCNA
Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, fylgdist með tilraunaskoti nýrra gerðar eldflauga í dag. Þetta kemur fram á vef KCNA, ríkismiðli einræðisríkisins, en þar segir að tveimur skammdrægum eldflaugum hafi verið skotið á loft og þær hafi flogið um 330 kílómetra. Þetta er í annað sinn sem Norður-Kóreumenn gera tilraunir með þessar tilteknu eldflaugar.

Samkvæmt Yonhap fréttaveitunni frá Suður-Kóreu er þetta í tíunda skipti sem eldflaugum er skotið á loft frá Norður-Kóreu í tilraunaskyni. Að þessu sinni var tilraunaskotið framkvæmt einungis nokkrum klukkustundum eftir að yfirvöld einræðisríkisins lýstu því yfir að þau væru tilbúinn til frekari viðræðna við Bandaríkin um kjarnorkuvopn þeirra í þessum mánuði.



Í yfirlýsingu KCNA er haft eftir Kim að með þessu tilraunaskoti hafi geta eldflauganna í átökum verið fullreynd. Þó standi til að gera frekari tilraunir.

Sérfræðingar sem Reuters ræddi við segja tilraunaskoti þessu ætlað að senda yfirvöldum Bandaríkjanna skilaboð um það hvað höfnun viðræðna gæti falið í sér.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×