Erlent

Þjóðverjar fundust látnir í íbúð á Jótlandi

Atli Ísleifsson skrifar
Arrild er lítið þorp um þrjátíu kílómetrum frá þýsku landamærunum.
Arrild er lítið þorp um þrjátíu kílómetrum frá þýsku landamærunum. Getty
Lögregla í Danmörku rannsakar nú andlát tveggja Þjóðverja sem fundust látnir í íbúð á Jótlandi í gærdag. Danskir fjölmiðlar segja lögreglu ekki hafa tjáð sig mikið um dauðsföllin, en þó hafa staðfest að þau séu „grunsamleg“.

Jyllands-Posten segir að hin látnu séu eldri borgarar og hafi fundist í ferðamannaíbúð í bænum Arrild við Toftlund á suðvesturhluta Jótlands.

Líkin fundust um klukkan 17 í gærdag að staðartíma og hefur enn ekki tekist að varpa ljósi á hvernig dauða Þjóðverjanna bar að. Því séu þau skilgreind sem „grunsamleg“.

Ekki hefur fengist staðfest um aldur fólksins eða um ástæður þess að það var í Danmörku. Lögreglu barst ábending um málið, en vill þó ekki upplýsa hvort að sá sem hringdi inn tengist fólkinu á einhvern hátt.

Arrild er lítið þorp um þrjátíu kílómetrum frá þýsku landamærunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×