Erlent

Fella niður enn ein lög Obama sem ætlað var að vernda umhverfið

Samúel Karl Ólason skrifar
Andrew Wheeler, starfandi yfirmaður Umhverfisverndarstofnunnar Bandaríkjanna.
Andrew Wheeler, starfandi yfirmaður Umhverfisverndarstofnunnar Bandaríkjanna. AP/Jacquelyn Martin
Ríkisstjórn Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, ætlar að fella niður lög um vatnsvernd sem sett voru á í forsetatíð Barack Obama. Löggjöfinni var ætlað að vernda votlendi, ár og læki víða um Bandaríkin og var þeim sérstaklega ætlað að vernda smærri ár og læki sem renna í stórar ár og vötn.

Verktakar, námufyrirtæki og bændur voru sérstaklega ósáttir við lögin og sögðu þau brjóta gegn eignarrétti og skaða efnahagsþróun.

AP fréttaveitan segir starfandi yfirmann Umhverfisverndarstofnunar Bandaríkjanna hafa skrifað grein þar sem hann sagði markmiðið niðurfellingar laganna að binda enda á óvissu bænda, verktaka og landeiganda. Hann gagnrýndi sérstaklega í greininni að lög Obama hefðu verndað „einangraðar tjarnir og læki sem renna eingöngu í rigningu“.



Umhverfisverndarsinnar segja að afnám reglanna muni leiða til þess að gæði drykkjarvatns milljóna Bandaríkjamanna muni versna og að votlendi, sem sporni gegn flóðum, sía mengunarefni úr vatni og eru vistsvæði gífurlegs fjölda fiska, fugla og annarra dýra, standi nú frammi fyrir skemmdum.

Samkvæmt Washington Post eru samtök umhverfisverndarsinna þegar byrjuð að undirbúa lögsókn gegn Umhverfisstofnunarinnar.



Vatnsverndarlög Bandaríkjanna voru upprunalega sett árið 1972 og hefur umfang þeirra aukist mjög síðan þá. Með breytingum ríkisstjórnar Trump er í rauninni verið að færa lögin aftur til ársins 1986.

EPA ætlar þó að leggja fram nýja skilgreiningu um hvaða ár, vötn og votlendi njóta verndar alríkisstjórnar Bandaríkjanna á næstu mánuðum.

Tump hefur einsett sér að fella niður mörg af lögum Obama. Stór hluti þeirra laga snýr að umhverfisvernd og hefur forsetinn þegar fellt mörg þeirra niður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×