Íslenski boltinn

„Yrði áfall fyrir FH að vinna ekki“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Atli Viðar Björnsson, sérfræðingur Pepsi Max-markanna og þriðji markahæsti leikmaður efstu deildar frá upphafi, telur að sínir gömlu félagar í FH séu sigurstranglegri í bikarúrslitaleiknum gegn Víkingi í dag.

FH-ingar hafa ekki unnið stóran titil frá 2016 þegar þeir urðu Íslandsmeistarar.

„Það hefur ekki komið titill í Krikann í tæp þrjú ár sem þykir langur tími á þeim bænum. Þá langar svakalega mikið í bikarinn. Ég held að Víkinga langi alveg jafn mikið í hann þannig að þetta verður áhugavert,“ sagði Atli Viðar í samtali við Guðjón Guðmundsson í Sportpakkanum.

„FH hefur verið á góðu róli undanfarnar vikur. Eftir að þeir fengu Morten Beck í framlínuna finnst mér allt annað yfirbragð á liðinu. Ég met það þannig að FH-ingar séu örlítið líklegri. Þeir hafa hefðina með sér og eru með fleiri leikmenn sem þekkja að spila svona leiki og vinna titla. Ég held að það hjálpi.“

Óttar Magnús þarf að axla ábyrgðÓlíklegt þykir að Kári Árnason leiki með Víkingum í dag en hann meiddist í leik Albaníu og Íslands á þriðjudaginn.

Atli Viðar segir að fjarvera Kára hafi áhrif á lið Víkings en hann skorar á Óttar Magnús Karlsson að gera sig gildandi í úrslitaleiknum.

„Það hefur heilmikla þýðingu og riðlar kerfinu og upplegginu. Það sem þarf að gerast er að aðrir leikmenn, eins og t.d. Óttar Magnús sem hefur verið svolítið í skjóli Kára, þarf að stíga upp og sýna alvöru frammistöðu og axla ábyrgð.“

En yrði það áfall fyrir FH að tapa bikarúrslitaleiknum?

„Ég held að Davíð Þór [Viðarsson], fyrirliði FH, hafi sagt á dögunum að tímabil FH-inga verði dálítið dæmt af þessum leik, þannig að ég held að það yrði áfall fyrir þá að vinna ekki,“ svaraði Atli Viðar.

Bikarúrslitaleikurinn hefst klukkan 17:00 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Útsending hefst hálftíma fyrir leik.

Fréttina í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.