Íslenski boltinn

Björn Daníel: Kominn tími á bikarmeistaratitil í Krikann

Anton Ingi Leifsson skrifar
Pétur Viðarsson og Björn Daníel Sverrisson verða í eldlínunni á morgun.
Pétur Viðarsson og Björn Daníel Sverrisson verða í eldlínunni á morgun. vísir/daníel
Björn Daníel Sverrisson, miðjumaður FH, segir að það sé kominn tími á bikarmeistaratitil í Krikanum en segir að stemningin í FH-hópnum sé róleg.

FH og Víkingur mætast í úrslitaleik Mjólkurbikarsins á Laugardalsvelli á morgun en Víkingur hefur ekki orðið bikarmeistari frá árinu 1971.

„Þetta leggst bara vel í mig. Það eru allir spenntir og þetta eru skemmtilegustu leikirnir sem þú spilar á Íslandi. Ég held að það sé spenningur og menn tilbúnir í þetta,“ sagði Björn við Vísi á æfingu FH-liðsins í dag.

Miðjumaðurinn knái segir að það sé spenna í hópnum en þeir séu ekki yfirspenntir.

„Já en það er samt búið að vera rólegt andrúmsloft. Það er langt síðan við spilum síðast og menn búnir að hvílast vel. Við erum búnir að hafa nægan tíma til að fara yfir Víkings-liðið.“

„Þetta er stórleikur en menn þurfa að spila þetta eins og hvern annan fótboltaleik svo ég held að menn séu nokkuð slakir yfir þessu.“

FH og Víkingur hafa spilað tvo leiki í sumar. Liðin gerðu jafntefli á Eimskips-vellinum í byrjun sumarsins og FH vann nauman sigur í Kaplakrika.

„Þetta leggst fínt í mig. Víkingur er búið að sýna að þeir eru með gott lið þó að taflan sýni annað, þá skiptir það engu máli. Við erum búnir að vinna einn leik gegn þeim og gera eitt jafntefli.“

FH-ingar fagna sigri á KR í undanúrslitunum sem skaut þeim í úrslitaleikinn.vísir/daníel
„Þeir eru góðir í fótbolta, sprækir og pressa vel. Við erum búnir að spila við þá tvisvar í sumar en samt sem áður búnir að fara vel yfir þá síðustu daga.“

Björn horfir ekki mikið á stöðu Víkinga í deildinni þar sem þeir hafa verið að berjast við botninn lengst af sumri.

„Þetta er bikarúrslitaleikur og það er öðruvísi en að spila á Íslandsmótinu. Það skiptir engu máli við hvaða lið þú ert að fara spila á móti, þetta verður alltaf erfitt og snýst um hvort liðið sé meira tilbúið.“

FH hefur ekki orðið meistari síðan 2016 og ekki unnið bikarinn síðan 2010, einmitt þegar Björn Daníel var síðast í FH-liðinu.

„Það er þó nokkuð langur tími. Það er einnig langt síðan FH varð bikarmeistari og það var 2010 þegar ég var í FH síðast. Það eru níu ár síðan og kominn tími á bikarmeistaratitil í Krikann.“

Upphitun fyrir úrslitaleikinn hefst á Stöð 2 Sport klukkan 16.30 en leikurinn sjálfur hefst klukkan 17.00.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×