Íslenski boltinn

Skagamenn geta fellt annað liðið í sumar og skrifað með því söguna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Skagamenn fögnuðu vel í byrjun sumars en sigrarnir hafa verið fáir síðustu þrjá mánuðina.
Skagamenn fögnuðu vel í byrjun sumars en sigrarnir hafa verið fáir síðustu þrjá mánuðina. vísir/daníel þór
Skagamenn eiga í kvöld möguleika á því að skrifa sögu efstu deildar karla í knattspyrnu með því að vera fyrsta félagið til að fella tvö lið á sama tímabilinu.ÍA tekur á móti Grindavík klukkan 17.00 á Norðurálsvellinum á Akranesi en leikurinn er hluti af 20. umferð Pepsi Max deildar karla.Eyjamenn féllu í Inkasso deildina 24. ágúst síðastliðinn eftir 2-1 tap fyrir ÍA upp á Akranesi. Nú geta sömu örlög beðið Grindvíkinga í kvöld.Skagamenn senda nefnilega Grindvíkinga niður í Inkasso-deildina með sigri. Grindvíkingar væru þá sjö stigum frá öruggu sæti en aðeins sex stig eftir í pottinum.Engu liði hefur tekist að fella tvö félög úr efstu deild á sama sumri síðan að tvö lið féllu fyrst úr deildinni haustið 1977.Sigurinn örlagaríki á ÍBV liðinu fyrir þremur vikum er reyndar eini sigur Skagamanna í síðustu þrettán leikjum liðsins í Pepsi Max deildinni eða síðan í lok maímánaðar.Skagamenn unnu fimm af fyrstu sex leikjum sínum í sumar og 64 prósent stiga liðsins í sumar komu fyrir 1. júní. Það er þessi frábæra byrjun sem hefur þýtt að nýliðarnir hafa aldrei dregist niður í fallbaráttuna þrátt fyrir skelfilegt gengi síðustu þrjá mánuði.Eyjamenn komust sjálfir næst því að ná þessu sumarið 1993. Fylkir féll þá eftir tap á móti ÍBV í lokaumferðinni en í umferðinni á undan höfðu Víkingar fallið eftir óhagstæð úrslit í öðrum leikjum áður en þeir mættu ÍBV. ÍBV vann þann leik reyndar 9-2.Falli Grindvíkingar í kvöld verður það í fyrsta sinn í heilan áratug þar sem fallbaráttan er ráðin fyrir tvær síðustu umferðirnar. Þróttur og Fjölnir féllu úr deildinni fyrir tvær síðustu umferðirnar sumarið 2009.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.