Íslenski boltinn

Ágúst: Miðað við árangurinn tel ég nokkuð víst að ég verði áfram

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ágúst býst við því að þjálfa Breiðablik á næsta tímabili.
Ágúst býst við því að þjálfa Breiðablik á næsta tímabili. vísir/bára
Ágúst Gylfason, þjálfari Breiðabliks, kvaðst sáttur með að Blikar séu búnir að landa Evrópusæti.

„Það er fínt að ná Evrópusæti annað árið í röð. Við vildum ná jafnvægi í félagið og við höfum komist í Evrópukeppni tvö ár í röð sem er ásættanlegt,“ sagði Ágúst eftir jafnteflið við Stjörnuna, 1-1, í kvöld.

Blikar áttu enn smá möguleika á Íslandsmeistaratitlinum fyrir leiki kvöldsins en hann er úr sögunni eftir sigur KR-inga á Hlíðarenda.

„Við vissum að Valsarar þyrftu að gera eitthvað á sínum heimavelli. En KR-ingar unnu og við vissum það undir lokin. Við óskum þeim til hamingju með Íslandsmeistaratitilinn. Þeir eru með flott lið og vel að þessu komnir,“ sagði Ágúst.

„Við þurfum að byggja ofan á það sem við höfum og fara að hugsa um næsta ár. En við viljum tryggja okkur 2. sætið.“

Ágúst fannst sínir menn verðskulda sigur í kvöld.

„Jú, miðað við hvernig leikurinn þróaðist. Við tókum yfir í seinni hálfleik og vorum mjög kraftmiklir eins og í síðustu leikjum. Við gerðum harða hríð að marki Stjörnunni og skoruðum en ég hefði viljað sjá okkur nýta færin betur.“

Ágúst á von á því að hann verði áfram þjálfari Breiðabliks.

„Það er ekkert klárt en ég vænti þess. Miðað við árangurinn tel ég það nokkuð víst,“ sagði Ágúst að endingu.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


×