Íslenski boltinn

Rúnar Páll: Verð áfram með liðið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rúnar Páll og hans menn eru í 4. sæti deildarinnar.
Rúnar Páll og hans menn eru í 4. sæti deildarinnar. vísir/bára
„Þetta var svakalegur leikur. Þetta var fram og til baka og gat dottið báðum megin. Ég er fúll að hafa ekki unnið. En svona er þetta. Við mættum frábæru liði Breiðabliks og áttum undir högg að sækja á tíma. Við vörðumst ágætlega en þeir sköpuðu samt færi sem Haraldur varði feykilega vel. Við skoruðum gegn gangi leiksins í fyrri hálfleik en markið var frábært,“ sagði Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, eftir jafnteflið við Breiðablik, 1-1, í kvöld.

„Við höldum ótrauðir áfram og ætlum að vinna Fylki á sunnudaginn. Við náðum ekki markmiði okkar í dag en fengum eitt stig sem við verðum að sætta okkur við.“

Von Stjörnunnar á að ná Evrópusæti er frekar veik en liðið þarf að treysta á að FH stígi feilspor.

„Við þurfum að hugsa um okkur sjálfa og síðan kemur í ljós hvernig þetta endar. Við þurfum að vinna og vonast til að FH misstígi sig,“ sagði Rúnar Páll.

Hann segir að hann verði þjálfari Stjörnunnar á næsta tímabili.

„Ég verð áfram með liðið. Það er alveg klárt,“ sagði Rúnar Páll.

En hvert stefnir Stjarnan á næsta tímabili?

„Stefnan í Garðabænum er alltaf að vinna titla. Það er bara þannig. Okkur gekk ekki nógu vel með það í ár en við reynum aftur á næsta ári,“ svaraði Rúnar Páll.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×