Íslenski boltinn

Helgi: Kannski of miklar kröfur gerðar hérna í Árbænum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Helgi hættir með Fylki eftir tímabilið.
Helgi hættir með Fylki eftir tímabilið. vísir/bára
Helgi Sigurðsson, þjálfari Fylkis, hrósaði sínum mönnum í hástert eftir sigurinn á Víkingi, 3-1, í kvöld. Með honum komust Fylkismenn upp í 5. sæti Pepsi Max-deildarinnar.„Þetta var sanngjarn sigur. Við hefðum átt að vera 2-3 mörkum yfir í hálfleik og fengum tvö dauðafæri í byrjun seinni hálfleiks. Svo tóku þeir aðeins yfir og jafna en við sýndum þvílíkan karakter eins og við höfum oft gert í sumar. Ég er hrikalega stoltur af strákunum sem eru búnir að leggja alla þessa vinnu á sig þessi þrjú ár sem ég hef verið með liðið,“ sagði Helgi eftir leik.„Við erum í 5. sæti þegar tvær umferðir eru eftir. Það eru mörg ár síðan Fylkir hefur verið í þessari stöðu. En við viljum meira og komast ofar. Þetta var gríðarlega öflug liðsframmistaða.“Helgi sagði leikinn í kvöld einn af þeim bestu hjá Fylki í sumar.„Þetta var heilsteyptur leikur. Við gáfum engin færi á okkur í fyrri hálfleik en 2-3 í þeim seinni. Við óðum í færum og með smá klókindum hefðum við skorað fleiri mörk. En ég kvarta ekki yfir 3-1 sigri,“ sagði Helgi.„Við gerðum vel að koma til baka eftir að þeir jöfnuðu. Strákarnir ætluðu sér sigur. Það er alveg sama hvort menn byrja inn á eða koma inn á, þeir gera sitt. Við erum með góðan hóp sem Fylkismenn mega vera stoltir af.“Í síðustu viku var greint frá því að Helgi yrði ekki þjálfari Fylkis á næsta tímabili. Heyra mátti að hann er ekkert sérstaklega ánægður með þann ráðahag.„Það er frábært að sjá þessa stráka dafna. Ég tók við þeim í Inkasso-deildinni og verkefnið var að koma liðinu upp og festa það í sessi í efstu deild. Við höfum staðist allar raunir. Við erum í 5. sæti núna og eigum möguleika að komast enn ofar. Það eru kannski of miklar kröfur gerðar hérna í Árbænum. Ég veit ekki,“ sagði Helgi að lokum.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.