Íslenski boltinn

Tindastóll getur komist upp í efstu deild í fyrsta sinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Murielle Tiernan, leikmaður Tindastóls, er markahæst í Inkasso-deild kvenna með 22 mörk.
Murielle Tiernan, leikmaður Tindastóls, er markahæst í Inkasso-deild kvenna með 22 mörk. vísir/getty

Tindastóll getur tryggt sér sæti í efstu deild í fyrsta sinn þegar lokaumferð Inkasso-deildar kvenna fer fram í kvöld. Allir fimm leikirnir hefjast klukkan 19:15.

Grindavík og ÍR eru fallin og Þróttur búinn að vinna deildina. Annað sætið og þar með sæti í Pepsi Max-deildinni er hins vegar enn í boði.

FH er í 2. sæti með 36 stig, tveimur stigum á undan Tindastóli og þremur stigum á undan Haukum.

Fyrir nokkrum vikum benti ekkert til annars en FH-ingar færu örugglega upp í Pepsi Max-deildinni. En FH hefur aðeins fengið eitt stig í síðustu þremur leikjum og því er liðið aðeins með tveggja stiga forystu í 2. sætinu.

Eftir 0-7 tap fyrir Þrótti 8. ágúst hefur Tindastóll unnið fimm leiki í röð. Liðið fær ÍA í heimsókn í kvöld. Skagakonur eru í 6. sæti deildarinnar.

Til að Tindastóll eignist lið í efstu deild í fótbolta í fyrsta sinn þarf liðið að vinna ÍA og treysta á að Afturelding, sem er í 5. sæti, leggi FH að velli. Jafntefli ætti að duga FH-ingum því þeir eru með miklu betri markatölu en Stólarnir.

Haukar eiga enn tölfræðilega möguleika á að ná 2. sætinu. Til þess að það gerist þarf FH að tapa, Tindastóll tapa eða gera jafntefli og Haukar að vinna botnlið ÍR mjög stórt. Haukar eru með 13 mörk í plús en FH 23 mörk. Eftir rólega byrjun á tímabilinu hafa Haukar unnið níu af síðustu tíu leikjum sínum.

Þróttur fær bikarinn fyrir sigur í Inkasso-deildinni afhentan eftir leikinn gegn Grindavík. Leikurinn verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.

Þá mætast Augnablik og Fjölnir á Kópavogsvelli. Liðin eru jöfn að stigum í 7. og 8. sæti deildarinnar.

Leikirnir í lokaumferð Inkasso-deildar kvenna (hefjast allir klukkan 19:15):
Afturelding - FH
Tindastóll - ÍA
Haukar - ÍR
Þróttur - Grindavík
Augnablik - Fjölnir

Staðan fyrir lokaumferðina í Inkasso-deild kvenna.


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.