Erlent

Tugir látnir í eldsvoða í báti undan ströndum Kaliforníu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Myndir frá vettvangi sem slökkvilið í Ventura-sýslu birti á Twitter í morgun.
Myndir frá vettvangi sem slökkvilið í Ventura-sýslu birti á Twitter í morgun. Skjáskot/Google Maps
Tugir eru látnir eftir að eldur kviknaði um borð í báti undan strönd Kaliforníuríkis í Bandaríkjunum í morgun. Héraðsmiðillinn KTLA hefur eftir slökkviliði í Ventura-sýslu að allir 34 farþegar um borð í bátnum hafi farist í eldsvoðanum. Fimm manna áhöfn hafi hins vegar verið bjargað.

Strandgæslan greindi fyrst frá atvikinu í færslu sem birtist á Twitter skömmu fyrir klukkan fimm í morgun að staðartíma, eða um hádegisbil að íslenskum tíma. Í færslunni kom fram að unnið væri að því að bjarga „yfir þrjátíu manns í vanda“ á bát í grennd við Santa Cruz-eyju. Eyjan liggur úti fyrir strönd Kaliforníu, skammt frá borginni Santa Barbara.

Í uppfærðu tísti strandgæslunnar var svo greint frá því að kviknað hefði í bátnum. Þá hafi hópi úr „áhöfn“ bátsins verið bjargað, þar af hafi einn einstaklingur hlotið minniháttar meiðsl.

Strandgæslan staðfesti svo við fréttastofu CNN að fimm hafi verið bjargað úr bátnum. Báturinn sem um ræðir heitir Conception og er gerður út frá höfn í Santa Barbara. Báturinn, sem er rúmir 20 metrar að lengd, hélt af stað frá Santa Barbara í þriggja daga siglingu á laugardag. Hann átti að snúa aftur til hafnar í dag.

CNN hefur eftir yfirmanni hjá strandgæslunni að alls hafi 39 verið um borð í bátnum, þar af fimm manna áhöfn. Áhöfnin hafi öll bjargast úr bátnum en farþegarnir voru undir þiljum og lokuðust inni þegar eldurinn kviknaði. Þá gangi björgunarmönnum erfiðlega að komast inn í bátinn þar sem eldurinn blossi sífellt aftur upp.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×