Erlent

Erfið staða fyrir Johnson

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Breska þingið kom saman í dag eftir sumarfrí og er útgangan úr Evrópusambandinu þingmönnum efst í huga. Forseti þingsins samþykkti fyrir skömmu að heimila neyðarumræður um útgönguna og búist er við því að síðar í kvöld samþykki þingið að á morgun hefjist formlega umræða um frumvarp sem gengur út á að fresta útgöngu að minnsta kosti fram í janúar.Ríkisstjórn Íhaldsflokksins, með stuðningi hins norðurírska Lýðræðislega sambandsflokks, missti meirihluta sinn á þingi í dag þegar Phillip Lee sagði sig úr Íhaldsflokknum og gekk til liðs við Frjálslynda demókrata. Þannig er orðið afar ólíklegt að frumvarpið um frestun verði fellt.Þingmenn þurfa þó að hafa hraðar hendur vilji þeir ná málinu í gegn enda hefur ríkisstjórnin ákveðið að þingfundum verði frestað í næstu viku. Skoskur dómstóll hóf meðferð í máli um sjötíu þingmanna sem vilja fá ákvörðuninni hnekkt í dag.Johnson forsætisráðherra er sagður ætla að boða til kosninga ef þingið samþykkir að fresta útgöngu, enda hefur Johnson ítrekað lofað að fresta útgöngudegi ekki og sagt að samþykkt frumvarpsins myndi skaða samningsstöðu Breta.Til að boða til kosninga þarf stuðning tveggja þriðju hluta þingmanna og þyrfti Johnson því að stóla á Verkamannaflokkinn. Hvort það gangi eftir er enn óljóst.


Tengdar fréttir

Kom á óvart að ríkisstjórn Boris Johnson skyldi missa meirihluta sinn

Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, segir það hafa komið á óvart að ríkisstjórn Íhaldsflokksins undir forystu Boris Johnson skyldi missa eins manns meirihluta sinn á þinginu í dag er Phillip Lee gekk til liðs við Frjálslynda demókrata.

Kosningar gætu blasað við á Bretlandi

Forsætisráðherrann er sagður ræða af alvöru um að boða til kosninga strax í haust verði ríkisstjórnin undir á þingi í vikunni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.