Erlent

Frestun Brexit samþykkt með ákvæði um útgöngusamning May

Kjartan Kjartansson skrifar
Boris Johnson forsætisráðherra beið ósigur í atkvæðagreiðslu í þinginu um frestun Brexit í kvöld. Hann hefur lagt fram frumvarp um að flýta kosningum.
Boris Johnson forsætisráðherra beið ósigur í atkvæðagreiðslu í þinginu um frestun Brexit í kvöld. Hann hefur lagt fram frumvarp um að flýta kosningum. Vísir/EPA
Meirihluti þingmanna á breska þinginu samþykktu frumvarp um að fresta útgöngunni úr Evrópusambandinu nú í kvöld. Á sama tíma var samþykkt breytingartillaga um að leggja útgöngusamning Theresu May, fyrrverandi forsætisráðherra, aftur fyrir þingið en hann var kolfelldur þrívegis fyrr á þessu ári.

Frumvarpið var samþykkt með 327 atkvæðum gegn 299 í neðri deild þingsins, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Það bindur hendur Boris Johnson, forsætisráðherra, gagnvart útgöngunni og knýr hann til að leita samþykkis þingsins fyrir útgöngu án samnings eða nýjum útgöngusamningi eða fresta útgöngunni ella. Að óbreyttu eiga Bretar að ganga úr sambandinu 31. október.

Nokkurrar ringulreiðar gætti eftir atkvæðagreiðsluna þar sem breytingartillaga um að leggja útgáfu af útgöngusamningi May aftur fyrir þingið. Breskir fjölmiðlar tala um að mögulega hafi sú tillaga verið samþykkt fyrir mistök.

Umræður standa nú yfir um tillögu forsætisráðherrans um að boða til kosninga um miðjan október. Til þess þarf stuðning tvo þriðju hluta þingheims. Búist er við að atkvæði verði greidd um frumvarpið um klukkan 20:20.

„Ég vil ekki kosningar, almenningur vill ekki kosningar en þessi þingdeild gerir ekki annað kleift,“ sagði Johnson þegar hann mælti fyrir frumvarpinu.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×