Erlent

Ætla að afnema allar hömlur á auðgun úrans

Gunnar Reynir Valþórsson og Samúel Karl Ólason skrifa
Hassan Rouhani, forseti Íran.
Hassan Rouhani, forseti Íran. AP/Forsetaembætti Íran
Stjórnvöld í Íran segjast ætla að afnema allar hömlur sem settar hafa verið á rannsóknir og þróun kjarnorkumála hjá ríkinu. Þetta kom fram í máli forseta landsins, Hassans Rouhani og segir hann að nýju reglurnar taki gildi frá og með morgundeginum. Strax á morgun verði því hafist handa við að hanna skilvindur til að hraða auðgun úrans, sem er nauðsynlegt skref í kjarnorkuvinnslu.

Bandaríkjamenn sögðu sig í fyrra frá kjarnorkusamningnum sem gerður hafði verið við Íran árið 2015 og settu viðskiptahömlur að nýju á Íran í framhaldinu. Síðan þá hefur olíusala Íran dregist verulega saman og hafa Íranar átt í viðræðum við Evrópuríki og Rússa um það að selja olíu fram hjá þvingunum Bandaríkjanna.

Sjá einnig: Vilja samkomulag um olíusölu sem fyrst



Yfirvöld í Íran hafa á móti tekið skref sem öll miða að því að brjóta samninginn, enda telja þau sig ekki skuldbundin til að fylgja honum geri Bandaríkin það ekki. Rouhani forseti segir að viðræður við Bandaríkin komi aðeins til greina að því gefnu að viðskiptaþvingunum verði hætt.

Íranar hafa ávallt haldið því fram að markmið þeirra sé ekki að þróa kjarnorkuvopn heldur að framleiða rafmagn með kjarnorku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×