Erlent

Vilja samkomulag um olíusölu sem fyrst

Samúel Karl Ólason skrifar
Mohammad Javad Zarif, utanríkisráðherra Íran, er staddur í Moskvu.
Mohammad Javad Zarif, utanríkisráðherra Íran, er staddur í Moskvu. EPA/YURI KOCHETKOV
Yfirvöld Íran munu segja skilið við kjarnorkusamkomulagið svokallaða verði nýtt samkomulag ekki gert fyrir lok þessarar viku. Þetta sagði Ali Rabiei, talsmaður ríkisstjórnarinnar, við blaðamenn í dag og sagði hann mikilvægt að Íran geti selt olíu, þrátt fyrir viðskiptaþvinganir Bandaríkjanna. Íranir líta til Evrópu og eiga nú í viðræðum í bæði Frakklandi og Rússlandi.

Markmið þeirra viðræðna er að tryggja að Íranir geti selt olíu sína á alþjóðlegum mörkuðum.



Staðan er sú í dag að hver sá sem kaupir olíu af Íran fellur undir aðgerðir Bandaríkjanna og missir þar að auki aðgang að fjármálakerfi ríkisins. Það gerðist fyrir rúmu ári síðan þegar Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sleit Bandaríkin frá kjarnorkusamkomulaginu og beitti Íran viðskiptaþvingunum á nýjan leik.

Síðan þá hefur olíusala Íran dregist verulega saman.

Bandaríkjamenn, Frakkar, Bretar, Rússar, Kínverjar, Þjóðverjar og Evrópusambandið gerðu samkomulagið við Írani árið 2015. Í því fólst að Íranir takmörkuðu kjarnorkuframleiðslu sína gegn því að heimsveldin felldu niður refsiaðgerðir sínar gegn þeim.

Forsvarsmenn þjóða Evrópu hafa þó reynt að halda samkomulaginu í gildi en með takmörkuðum árangri. Þá hafa Íranir brotið gegn samkomulaginu. Alþjóðakjarnorkustofnunin (IAEA) segir Írani bæði eiga meira úraníum en samkomulagið leyfi og að þeir hafi auðgað úraníum meira en leyfilegt sé, samkvæmt AP fréttaveitunni.



Án árangurs í viðræðunum ætla Íranir sér að auðga úraníum í meira magni.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×