Erlent

Tala látinna komin upp í 43 eftir Dorian og sjötíu þúsund hafa misst heimili sín

Eiður Þór Árnason skrifar
Gríðarleg eyðilegging er á svæðinu.
Gríðarleg eyðilegging er á svæðinu. Getty/Jose Jimenez

Minnst 43 eru taldir látnir á Bahamaeyjum vegna fellibyljarins Dorian og er óttast að sú tala eigi eftir að hækka til muna, samkvæmt upplýsingum frá yfirvöldum. Hundruðum íbúa er sárt saknað og telja viðbragðsaðilar að stór hluti þeirra sé fastur undir húsarústum á Abaco eyjum og eyjunni Grand Bahama, sem eru staðsettar norðarlega á Bahamaeyjum.

Sameinuðu þjóðirnar gáfu út í morgun að minnst sjötíu þúsund manns séu talin hafa misst heimili sitt á svæðinu í kjölfar fellibyljarins, sem er sá allra öflugasti sem skekið hefur eyjaklasann. Fólks er nú leitað í rústum með hjálp leitarhunda og hafa embættismenn lýst ástandinu á svæðinu sem „mannúðarkrísu.“ Alþjóðastofnanir eru í kappi við tímann og reyna nú að koma íbúum í skjól ásamt því að færa þeim mat og nauðsynjar.

Unnið er að því að koma fólki í öruggt skjól með ýmsum leiðum en illa farnir innviðir hafa hamlað leitun og björgun.

„Svæðið er rústir einar. Hvert einasta hús, mannvirki og líf á svæðinu hefur í meginatriðum verið rústað,“ sagði Patrick Oppmann, fréttamaður CNN sjónvarpsstöðvarinnar, sem lýsti ástandinu á áhrifamikinn hátt. Fjölmargir hafa einnig lýst því að hafa fundið „lykt af dauðanum“ á svæðinu.

Duane Sands, heilbrigðisráðherra Bahamaeyja, hefur miklar áhyggjur af ástandinu og segir að almenningur ætti að búa sig undir „ólýsanlegar fregnir af dauðsfalli og mannlegum þjáningum“ af völdum fellibyljarins.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.