Erlent

Kim hellti sér yfir ríkisráðið vegna fellibyls

Samúel Karl Ólason skrifar
Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu.
Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu. AP/KCNA
Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, er sagður hafa helt sér yfir háttsetta embættismenn ríkisins á neyðarfundi í dag vegna fellibylsins Lingling sem herjar nú á Kóreuskagann. Fellibylurinn hefur valdið minnst þremur dauðsföllum í Suður-Kóreu og óttast er að Lingling muni skemma uppskeru í einræðisríkinu, sem glímir oft við mikið hungursneyð.

BBC segir þurrka hafa leikið landbúnað einræðisríkisins illa í sumar.

Í frétt KCNA, ríkismiðils Norður-Kóreu, er Kim sagður hafa kallað embættismennina sem sóttu fundinn „hjálparlausa“ og skammað þá fyrir að hafa ekki gert ráðstafanir vegna fellibyljarins. Þá mun Kim hafa kallað eftir því að allir íbúar ríkisins sem vettlingi geta valdið komi saman til að koma í veg fyrir skemmdir vegna fellibylsins.

Sérstök áhersla er lögð á að vernda uppskeru, stíflur og uppistöðulón.

Eins og áður segir eru minnst þrjú látin í Suður-Kóreu og hafa hundruð slysa orðið. Samkvæmt Yonhap fréttaveitunni mældist vindurinn þegar mest var 54,4 metrar á sekúndu og er það fimmta hæsta slíka mæling sem mælst hefur í landinu

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×