Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Grindavík - KA 0-2 | Tvö mörk í uppbótartíma þegar KA vann mikilvægan sigur

Smári Jökull Jónsson skrifar
vísir/bára
Grindvíkingar eru í afar erfiðri stöðu í fallsæti Pepsi Max-deildarinnar eftir 2-0 tap gegn KA á heimavelli í dag. Bæði mörk KA komu í uppbótartíma og Grindvíkingar eru nú fjórum stigum frá öruggu sæti í deildinni.

KA menn áttu fyrstu marktilraunina í dag eftir aðeins rúma mínútu þegar Hallgrímur Mar Steingrímsson átti ágætt skot yfir mark heimamanna. Það gaf svolítið tóninn því KA menn ógnuðu meira næstu mínútur og Grindvíkingar voru, eins og oft áður í sumar, fáliðaðir þegar þeir sóttu og lengi að koma sér upp völlinn.

Hvorugu liðinu gekk vel að skapa sér almennileg færi. KA var sterkari aðilinn framan af en þegar leið á fyrri hálfleikinn sóttu Grindvíkingar aðeins í sig veðrið. Þeir stilltu upp með þriggja manna varnarlínu í fyrsta sinn í sumar og á köflum vantaði að bakverðir liðsins fylgdu betur með í sóknina.

Staðan í hálfleik var markalaus og ljóst að Grindvíkingar þyrftu aðeins að spýta í lófana eftir hlé því jafntefli hefði lítið hjálpað þeim í þeirri stöðu sem þeir eru í.

Síðari hálfleikur hófst ekki ólíkt þeim fyrri og lítið um færi. Á 58.mínútu fengu KA menn hins vegar víti þegar Sigurjón Rúnarsson togaði Ásgeir Sigurgeirsson niður utarlega í teignum. Úr blaðamannastúkunni virtist frekar augljóst að Ásgeir braut fyrst á Sigurjóni en dómari leiksins, Tom Owen frá Wales, benti á punktinn. Vladan Djogatovic í marki heimamanna varði hins vegar slakt víti Elfars Árna Aðalsteinssonar.

Eftir vítið jókst pressa Grindvíkinga með hverri mínútu. Þeir reyndu langa bolta fram og náðu lítið að skapa af færum. Langskotin þeirra voru örvæntingarfull og langt frá því að hitta markið. Þeir ógnuðu lítið í föstum leikatriðum en reyndu hvað þeir gátu.

Það var svo komð fram á 90.mínútu þegar varamaðurinn Nökkvi Þeyr Þórisson vann boltann af áðurnefndum Sigurjóni við vítateiginn hægra megin, lék inn í teiginn þar sem Sigurjón braut á honum. Nú benti dómarinn réttilega á punktinn, aftur steig Elfar Árni fram og skoraði af öryggi.

Á fimmtu mínútu uppbótar tíma tryggði síðan Nökkvi Þeyr sigurinn með góðu marki og KA-menn fögnuðu gríðarlega enda fara þeir langt með að tryggja sæti sitt í deildinni með þessum sigri.



Af hverju vann KA?



Þeir nýttu sér mistök Grindvíkinga undir lokin og það þegar heimamenn settu fleiri menn í framlínuna. Vörn þeirra var þétt í dag og heimamenn sköpuðu sér ekkert almennilegt færi í leiknum.

Sóknarleikur Grindvíkinga er aðalástæðan fyrir því að þeir eru komnir í þá stöðu sem þeir eru í. Það vantar einfaldlega meiri gæði og þeir máttu ekki við því að missa menn eins og Alexander Veigar Þórarinsson og Vladimir Tufegdzig í meiðsli.

Þessir stóðu upp úr:

Nökkvi Þeyr Þórisson kom inná á 72.mínútu í dag og var í raun maðurinn á bakvið sigurinn. Hann fiskaði vítið sem Elfar Árni skoraði úr og tryggði síðan sigurinn sjálfur í blálokin.

Hallgrímur Mar var ógnandi sömuleiðis og þá var varnarlína KA traust í dag.

Hjá Grindavík var Josip Zeba öflugur og Sigurjón Rúnarsson ágætur þrátt fyrir mistökin sem hann gerði þegar Nökkvi Þeyr fiskaði vítið.

Hvað gekk illa?

Sóknin hjá Grindavík. Þetta er gömul saga og ný. Þeir sækja á of fáum mönnum og eru seinir að keyra upp völlinn þegar þeir fá tækifæri til. Uppspilið tekur langan tíma og andstæðingarnir oftast komnir með alla menn afturfyrir boltann þegar Grindvíkingar hefja sókn.

Hvað gerist næst?

Nú er framundan landsleikjahlé en eftir það halda Grindvíkingar á Akranes þar sem þeir mæta ÍA. Grindavík þarf sigur í þeim leikjum sem eftir eru til að eiga möguleika á að halda sæti sínu og ekkert annað sem kemur til greina á Akranesi.

KA fær HK í heimsókn á Akureyri í næstu umferð. KA-menn anda eflaust léttar eftir sigurinn í dag en vilja laga stöðu sína í deildinni enn frekar.

Tufa: Gefumst ekki upp fyrr en þetta er tölfræðilega ómögulegt
Túfa er ekki búinn að gefast upp.vísir/bára
Srdjan Tufegdzig var algjörlega raddlaus eftir leikinn í dag þar sem hans menn biðu lægri hlut á heimavelli gegn fyrrum lærisveinum Tufa í KA. Hann var á því að Grindvíkingar hefðu átt að fá meira út úr leiknum í dag.

„Alveg klárlega. Mér fannst í dag enn og aftur við vera að gefa allt í þetta, strákarnir skilja allt eftir á vellinum og þetta er sorglegt. Þetta eru hlutir sem við getum ekki haft áhrif á og ég er enn og aftur stoltur af mínum strákum.“

Sóknarlega hafa Grindvíkingar verið bitlausir í mest allt sumar og hann brást þeim enn og aftur í dag og liðinu tókst ekki að skapa sér almennilegt færi í leiknum.

„Það er klárt mál að þegar við erum búnir að skora 14 mörk í allt sumar að það vantar gæði. Við erum búnir að fá fjögur víti á okkur í síðustu leikjum, gegn liðum sem við erum að berjast við í deildinni. Það er rosalega dýrt, hvort sem það eru réttir dómar eða ekki þá eru fjögur víti ansi mikið.“

Grindavík er í erfiðri stöðu, eru fjórum stigum frá öruggu sæti í deildinni og þau gætu orðið sex á morgun ef Víkingar vinna sinn leik gegn HK.

„Staðan er svört en við munum gera alveg eins og við getum allan tímann. Við erum búnir að gefa allt sem við gátum, jákvæðni, vinnusemi og allt og við munum gera það í þessum síðustu þremur leikjum sem við eigum eftir. Við klárum þetta með sóma og gefumst ekki upp fyrr en þetta er tölfræðilega ómögulegt.“

Óli Stefán: Finnst hópurinn hafa þroskast gríðarlega
Óli Stefán Flóventsson var sáttur í leikslok.vísir/bára
Óli Stefán Flóventsson þjálfari KA-manna var afskaplega ánægður eftir sigurinn á hans gamla heimavelli í Grindavík í dag.

„Í ljósi þess hvernig staðan er í deildinni þá var mjög mikilvægt að ráðast á þessi stig. Þegar við skorum fyrsta markið þá er ég að gera skiptingu til að þétta miðsvæðið og verja stigið. Þetta var því gríðarlega sætt að þetta skyldi detta fyrir okkur í lokin,“ bætti Óli Stefán við en bæði mörk KA í dag komu í uppbótartíma.

Fyrra markið kom úr vítaspyrnu en Elfar Árni Aðalsteinsson hafði misnotað vítaspyrnu fyrr í leiknum.

„Ein vinna sem við höfum verið í er hvernig við tæklum mótlæti og vonbrigði. Það veit guð að við höfum verið í mótlæti löngum stundum í sumar. Mér finnst hópurinn hafa þroskast gríðarlega og tekist vel á við mótlæti. Þarna kom tímapunktur þar sem við uppskárum úr þeirri vinnu.“

„Mér fannst engan bilbug á okkur að finna eftir vítið, og þrátt fyrir að þeir hafi aðeins pressað og ógnað með löngum boltum þá fannst mér sjá á okkar liði að við ætluðum að selja okkur dýrt,“ sagði Óli Stefán og bætti við að það hefði enginn vafi verið að Elfar Árni færi aftur á punktinn.

„Nei, ég treysti þessum strákum alveg 100%. Það sýnir líka sigurvegarinn í honum að taka af skarið og fara aftur. Fótbolti er furðulegur og við höfum farið illa með mörg dauðafæri, ekki bara í dag heldur að undanförnu. Hann tók þetta á sig hann Elfar og kláraði það vel.“

Nökkvi Þeyr Þórisson átti frábæra innkomu fyrir KA-menn, kom inn á 72.mínútu og fiskaði vítið sem Elfar skoraði úr og skoraði svo seinna markið sjálfur.

„Það er það sem við viljum fá frá þessum strákum. Ég er búinn að segja ansi oft í sumar að við erum að reyna að marka þessa stefnu og taka þessa stráka og blóðga þá. Nú kom Nökkvi inn og nýtti tækifærið, hann hefur komið inn og staðið sig vel í leikjum í sumar. Hann gerði það svo sannarlega í dag.“

KA-menn eru nú sex stigum á undan Grindavík og fóru þar að auki uppfyrir Víkinga sem eiga reyndar leik til góða.

„Við horfum bara í næstu þrjú stig. Þetta er svo stórfurðuleg deild, núna eigum við tvo heimaleiki eftir og einn útileik á móti liðum sem eru í kringum okkur þannig að það eru möguleikar í þessu. Við horfum bara í næstu þrjú stig og teljum svo upp úr hattinum í lokin.“

Gunnar: Höfum einfaldlega ekki verið nógu góðir
Gunnar Þorsteinsson var þungur á brún í leikslok í dag.vísir/bára
„Það þarf engan stjarneðlisfræðing til að sjá að staðan er ansi svört. Það þarf algjört kraftaverk til að bjarga okkur,“ sagði Gunnar Þorsteinsson fyrirliði Grindavíkur eftir tap gegn KA í Pepsi Max-deildinni í dag.

Fyrir leikinn voru KA-menn þremur stigum á undan Grindavík í fallbaráttunni og því um afskaplega mikilvægan leik að ræða. Eftir tapið er staða Grindavíkur erfið.

„Mér var kennt að það eru tvær leiðir til að tapa eða falla, annaðhvort að gera það með hangandi haus eða spila þar til feita konan syngur. Við munum gera okkar allra besta í síðustu þremur leikjunum og láta það í hendur æðri máttarvalda hvort það verður nóg eða ekki,“ sagði uppgefinn fyrirliði heimamanna í samtali við Vísi eftir leik í dag.

Grindvíkingar pressuðu KA-menn aðeins síðustu tuttugu mínúturnar en voru oft á tíðum fáliðaðir í sóknarleik sínum og sköpuðu sér ekki eitt gott færi í dag.

„Það má velta taktík fyrir sér og hvort við hefðum átt að pressa fyrr. Við skiptum um kerfi núna og við erum að reyna og reyna. Við erum gjörsamlega að leggja hjarta og sál í þetta, leikmenn, þjálfarateymi og stjórn.“

„Stundum er það bara ekki nóg og þegar besta færi okkar er eitt skot úr D-boganum þá áttu voðalega lítið skilið. Sama hversu mikið maður heftur lagt sig fram eða hversu fá mörk við höfum fengið á okkur þá erum við einfaldlega ekki búnir að vera nógu góðir.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira