Enski boltinn

Neville vill að leikmenn sniðgangi samfélagsmiðla til að berjast gegn netníði

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Neville hvetur leikmenn til að grípa til aðgerða í baráttunni gegn netníði.
Neville hvetur leikmenn til að grípa til aðgerða í baráttunni gegn netníði. vísir/getty
Phil Neville, þjálfari enska kvennalandsliðsins, hvetur fótboltamenn til að sniðganga samfélagsmiðla til að mótmæla netníði.

Paul Pogba, leikmaður Manchester United, varð fyrir kynþáttaníði á samfélagsmiðlum eftir að hann klúðraði vítaspyrnu í 1-1 jafntefli United og Wolves í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Margir samherjar Pogbas hafa stigið fram og fordæmt kynþáttaníðið sem hann varð fyrir. Þeirra á meðal eru Harry Maguire og Marcus Rashford.

Neville segir að aðgerða sé þörf til að stöðva níð af þessu tagi.

„Fótboltasamfélagið verður að grípa til róttækra aðgerða. Ég og fleiri eru komnir með nóg af þessu. Ég velti því fyrir mér hvort við þurfum að sniðganga samfélagsmiðla því Twitter og Instagram gera ekki neitt í þessu. Þeir senda tölvupóst um að þeir ætli að rannsaka málið en svo gerist ekkert,“ sagði Neville.

„Ég hef misst alla trú á þeim sem stjórna samfélagsmiðlum. Við skulum því senda sterk skilaboð og hætta á samfélagsmiðlum í hálft ár. Sjáum hvaða áhrif það hefur á þessi fyrirtæki,“ bætti Neville við.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×