Erlent

Írska baktryggingin ófrávíkjanleg krafa ESB

Andri Eysteinsson skrifar
Það fór vel á milli Macron og Johnson í París í dag.
Það fór vel á milli Macron og Johnson í París í dag. Getty/Chesnos
Forseti Frakklands, Emmanuel Macron, fundaði í dag með forsætisráðherra Bretlands, Boris Johnson í París. Macron og Johnson ræddust saman í frönsku forsetahöllinni, Élysée-höll, og snerust umræðurnar að mestu um Brexitsamninginn en fyrirhuguð er útganga Breta úr Evrópusambandinu 31. október næstkomandi. BBC greinir frá.Að loknum fundi leiðtoganna ræddu þeir efni fundarins við blaðamenn fyrir utan Élysée-höll. Franski forsetinn sagðist hafa mikla trú á því að Bretland og Evrópusambandið nái samkomulagi innan þrjátíu daga. Þó yrði ekki hægt að semja um glænýtt samkomulag en vel væri hægt að eiga við samningsdrögin sem liggja fyrir en breska þingið hefur endurtekið hafnað.Merkel og Johnson á fundi sínum í vikunni.Getty/Omer Messinger
Einn helsti ásteytingarsteinninn í samningaviðræðum ESB og Bretlands hafa verið málefni Írlands og Norður Írlands, baktryggingin svokallaða. Baktryggingunni er ætlað að koma í veg fyrir að setja þurfi upp hefðbundið landamæra- og tollaeftirlit á mörkum Írlands og Norður-Írlands við útgöngu Bretlands úr ESB.Boris Johnson og fleiri íhaldsmenn eru andsnúnir baktryggingunni og hefur Boris til að mynda sagt hana ólýðræðislega, með henni haldi ESB Bretum enn í heljargreipum þrátt fyrir vilja bresku þjóðarinnar um að yfirgefa sambandið fyrir fullt og allt.

Á ábyrgð Breta að leggja fram lausnir

Evrópusambandið er hins vegar ekki jafnhrifið af því að fella baktrygginguna úr útgöngusamningnum eins og Boris og félagar. Emmanuel Macron sagði á blaðamannafundi hans og Johnson í dag að baktryggingin væri ófrávíkjanleg krafa Evrópusambandsins og væri eina leiðin til þess að tryggja stöðugleika á Írlandi. Angela Merkel hefur þá sagt að það væri á ábyrgð Breta að leggja fram tillögur að lausnum.Boris hefur undanfarna daga fundað með Evrópusambandsleiðtogum, þar á meðal Angelu Merkel, kanslara Þýskalands. Hann hefur lýst þeirri skoðun sinni að Bretar verði að yfirgefa ESB 31. október næstkomandi, sama hvort samningar hafi náðst eður ei. Hann sagðist vera bjartsýnn eftir fundi sína með Merkel og Macron og að Bretar myndu aldrei setja á harða landamæragæslu á landamærum Norður-Írlands og Írlands.Boris Johnson mun nú halda til Biarritz í Frakklandi þar sem að fundur G7 ríkjanna fer fram, þar mun hann hitta fyrir ýmsa þjóðhöfðingja og gefst því væntanlega vettvangur til umræðna um Brexit og fleiri málefni Bretlands.


Tengdar fréttir

Boris segir írsku baktrygginguna vera ólýðræðislega

Boris Johnson forsætisráðherra Breta segir í bréfi til Evrópusambandsins að írska baktryggingin, einn helsti ásteitingarsteinninn í útgöngusamningum Breta og ESB vegna Brexit, sé andlýðræðisleg og alls ófær. Því verði Evrópusambandið að falla frá þeirri kröfu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.