Enski boltinn

Giggs segir að leikmenn Manchester United þurfi að sparka í Pogba á æfingum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Ryan Giggs.
Ryan Giggs. vísir/getty
Ryan Giggs, fyrrum leikmaður og fyrirliði Manchester United, segir að samherjar Paul Pogba eigi að taka vel á honum á æfingum til þess að fá hann til að spila vel.

Framtíð Pogba hjá Man. Utd hefur verið í lausu lofti í allt sumar en hann hefur verið orðaður við Real Madrid eftir að hafa sagt í viðtali að hann vildi nýja áskorun.

Margir myndu segja að Giggs væri af „gamla skólanum“ en hann vill einfaldlega að samherjar Pogba taki vel á honum á æfingum.

„Sparkið í hann á æfingum. En það gerist ekki lengur. Þú ert hættur að sjá það. Núna er ég ekki að segja þér að sparka í alla en þannig varð Ronaldo betri,“ sagði Giggs við Evening Standard.







„Scholes sparkaði í hann ef hann tók of margar snertingar. Skyndilega þá fór þetta að virka að hann gat ekki snert boltann svona oft því þá yrði hann sparkaður niður.“

Goðsögnin á Old Trafford segir að stuðningsmennirnir séu ekki sammála um Pogba; hvort að það eigi að halda heimsmeistaranum eða einfaldlega láta hann fara.

„Ég held að stuðningsmennirnir séu klofnir. Sumir vilja láta hann fara og sumir sjá gæðin sem hann hefur og ef hann fer verður það mikill missir.“

„Ef þú lætur alla leikmennina fara og hefur ekki gæðin til að manna þeirra stöður, þá verður þetta erfitt. Svo það verður erfitt fyrir Solskjær að fá jafnvægi í liðið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×