Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan 2-1 ÍBV | Stjarnan fjarlægist fallbaráttuna

Gabríel Sighvatsson skrifar
Sóley Guðmundsson, leikmaður Stjörnunnar.
Sóley Guðmundsson, leikmaður Stjörnunnar. vísir/daníel
Af hverju vann Stjarnan?

Stjörnuliðið var beittari í öllum aðgerðum fram á við og skapaði meiri hættu heldur en Eyjaliðið. ÍBV virtist hægt og það var hugmyndasnautt á síðasta þriðjungi.

Garðbæingar sýndu kraft og vilja í dag og það var alltaf tilfinningin að þeir myndu taka stigin þrjú.

Hvað gekk illa?

Stjörnunni gekk ekki vel að klára færin í fyrri hálfleik. Liðið fékk tvö góð færi til að komast yfir í leiknum en tókst ekki.

Í seinni hálfleik skoraði liðið tvö mörk en hleypti ÍBV aftur inn í leikinn með klaufalegu marki inn á milli. Lið ÍBV hefur gengið illa að halda hreinu í sumar og í dag varð engin breyting þar á.

Hverjir stóðu upp úr?

Hildigunnur Ýr Benediktsdóttir og Jana Sól Valdimarsdóttir skoruðu mörk Stjörnunnar í dag og Hildigunnur Ýr var sérstaklega hættuleg í sóknarleiknum. Sigrún Ella Einarsdóttir átti góðan leik og lék varnarmenn ÍBV grátt. Shameeka Fishley var dugleg að koma lisfélögum sínum í færi.

Hvað gerist næst?

Stjarnan á mjög erfitt verk fyrir höndum en þær heimsækja Breiðablik. ÍBV þarf að ná í stig hið snarasta og fær gott tækifæri til þess þegar þær mæta HK/Víkingi eftir 10 daga.

Kristján Guðmunds: Mikilvægur kafli í okkar þroskaferli

Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar, var mjög ánægður með stigin þrjú á móti ÍBV og baráttuna í liðinu.

„Við erum öll fyrst og fremst mjög ánægð með þá baráttu sem við sýndum. Það var mikill vilji í liðinu, mikið hlaupið og mikið barist. Talandinn var fínn.“

„Þó það hafi komið á móti ÍBV, það verður að vera þannig, þær fengu hin 3 stigin, við tökum þessi,“ en Kristján þjálfaði liðið um skeið áður en hann tók við Stjörnunni fyrir þetta sumar.

Í fyrri hálfleik fékk liðið nokkrar álitlegar sóknir en tókst ekki að skora.

„Það voru tvær sóknir þar sem annað skotið fer í stöngina. Þá fundum við leiðina að markinu og skorum bæði mörkin mjög svipað í seinni hálfleik. Okkur tókst að fara upp völlinn í fyrri hálfleik þegar stangarskotið kemur, það opnaði leiðina fyrir okkur og við sáum betur hvert við áttum að fara.“

Markið sem Stjarnan fékk á sig lýsti Kristján sem „mjög klaufalegu.“

„Við náum að verjast föstum leikatriðum mjög vel og boltinn fer út. En við erum ekki nógu klók að hreinsa honum alveg og standa rétt. Við förum að horfa á boltann og svo eru teknar ákvarðanir sem fylgja því að spila svona leiki og boltinn fer í markið. Þetta var ódýrt mark en við komum til baka. Það var enginn að hengja haus, allir kjöftuðu hvorn annan í gang og við skorum.“

Stjarnan verðskuldaði sigurinn á endanum og er þetta mikilvægur sigur fyrir liðið sem kemst aðeins nær öruggu sæti í deildinni með þessum stigum.

„Við vorum örlítið ofan á í fyrri hálfleik svo fannst mér við vera með leikinn í þeim seinni.“

„Þetta er fyrst og fremst mikilvægur kafli í þessu þroskaferli sem liðið stendur í. Við erum að ýta fleiri og stærri grjótum úr vegi okkar en við bjuggumst við á þessu tímabili. Þetta var mjög mikilvægur leikur, við settum hann upp sem úrslitaleik og unnum hann. Það eru fleiri úrslitaleikir eftir og við þurfum að standa undir þeim.“

„Við eigum eftir leik við Keflavík það getur allt gerst í þessu. Við þurfum að vera einbeitt, sýna þessa baráttu og samheldni sem við sýndum í dag, þá getum við fengið fleiri svona sigra.“

Jón Óli: Viss lið sem eru betri en önnur

„Maður er náttúrulega alltaf svekktur að tapa.“ sagði Jón Ólafur Daníelsson, þjálfari ÍBV, eftir 2-1 tap gegn Stjörnunni.

„Ég held að heilt yfir hafi þetta ekki verið ósanngjarnt. Mér fannst við ekki ná að nálgast mark Stjörnunnar nógu mikið, það vantaði meiri fyllingu í sóknarleikinn hjá okkur. Við enduðum dálítið mikið á að tapa boltanum og þetta voru mikil hlaup fram á við fyrir miðjumennina fram og síðan strax aftur til baka. Við náðum ekki alveg nægilega góðum takti í dag.“

Jón Óli var spurður út í varnarleik liðsins og bent á að síðast leikur sem liðið hélt hreinu hafi einmitt verið síðasti leikur liðsins gegn Stjörnunni.

„Það getur passað. Ég held við höfum bara haldið hreinu í tveimur leikjum í sumar. Það er ekki alltaf hægt að halda hreinu.“

Staða ÍBV er að verða svört og liðið er einungis 2 stigum frá fallsæti og gæti liðið verið verra sett.

„Ég er búinn að vera meðvitaður um það og sagt það allan tímann að það eru viss lið sem eru betri en önnur og við erum í þessari baráttu við liðin sem eru lægra sett þessa stundina í úrvalsdeildinni. Við þurfum að berjast fyrir öllu okkar ef við ætlum að ná að halda okkar sæti í deildinni.“

„Við skoðum hvernig andstæðingarnir eru og athuga hvað við getum gert á móti þeim og svo verðum við að sjá til að leik loknum.“ sagði Jón Óli að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira