Erlent

Epstein með nokkur beinbrot í hálsi

Kjartan Kjartansson skrifar
Epstein var handtekinn snemma í júlí og sakaður um mansal á ungum stúlkum í New York og Flórída.
Epstein var handtekinn snemma í júlí og sakaður um mansal á ungum stúlkum í New York og Flórída. Vísir/EPA
Krufning á líki barnaníðingsins Jeffreys Epstein leiddi í ljós að hann var með nokkur brotin bein í hálsi. Slíkir áverkar eru sagðir geta átt sér stað þegar fólk hengir sig en þeir séu algengari í fórnarlömbum sem eru kyrkt.

Epstein fannst látinn í fangaklefa sínum í Manhattan á laugardagsmorgun. Hann virtist hafa hengt sig með laki. Spurningar vöknuðu þá um eftirlit í gæsluvarðhaldsfangelsinu þar sem honum var haldið. Epstein var ekki á sjálfsvígsvakt þrátt fyrir að hann hefði áður fundist meðvitundarlaus með áverka á hálsi í klefa sínum í síðasta mánuði.

Tveir verðir hafa verið settir í launað leyfi eftir að í ljós kom að þeir gættu ekki að Epstein í þrjár klukkustundir þar sem þeir voru sofandi. Verðirnir fölsuðu jafnframt skjöl til að fela afglöpin.

Washington Post hefur eftir heimildarmönnum sínum sem þekkja til niðurstöðu krufningarinnar á líki Epstein að hann hafi meðal annars verið með brotið málbein í hálsinum. Það geti brotnað þegar fólk hengir sig, sérstaklega hjá eldra fólki, en það sé algengara þegar fólk er kyrkt, að sögn sérfræðinga.

Ekki hefur enn verið gefin út formleg dánarorsök. Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna, sem hefur heitið ítarlegri rannsókn á hvernig dauða Epstein bar að, vildi ekki svara spurningum bandaríska blaðsins um niðurstöður krufningarinnar.

Barbara Simpson, aðalréttarlæknir New York-borgar, segir að enginn einn hlutur sem kemur fram við krufningu gefi afdráttarlaust svar um hvernig dauða manneskju bar að.

Miklar samsæriskenningar hafa farið á flug um dauða Epstein og hefur Donald Trump forseti meðal annars dreift einni slíkri um að Clinton-hjónin hafi komið nálægt honum. Epstein er sagður hafa átt fjölda auðugra og valdamikilla vina í gengum tíðina, þar á meðal Bill Clinton, fyrrverandi forseta, Trump sjálfan, og Andrés prins, bróður Karls Bretaprins. Andrés hefur meðal annars verið sakaður um að misnota stúlkur sem Epstein kom honum í kynni við.

Alexander Acosta, atvinnumálaráðherra Bandaríkjanna, sagði af sér vegna máls Epstein í júlí. Hann var saksóknari á Flórída þegar sambærilegar ákærur á hendur Epstein og hann stóð frammi fyrir í New York nú voru lagðar til hliðar gegn því að hann játaði á sig smávægilegra brot. Ekki hefur verið svarað hvers vegna Epstein fékk svo mildilega meðferð hjá saksóknurum eða hvers vegna samkomulagið sem þeir gerðu við hann fól í sér friðhelgi fyrir alla mögulega samverkamenn hans.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.