Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: KR - Grindavík 5-2 | Stórsigur KR-inga og 13 stiga forysta

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Óskar Örn jafnaði markamet KR í efstu deild í kvöld.
Óskar Örn jafnaði markamet KR í efstu deild í kvöld. vísir/bára
KR náði 13 stiga forskoti á toppi Pepsi Max-deildar karla með 5-2 sigri á Grindavík á Meistaravöllum í kvöld.

Grindavík vann fyrri deildarleikinn gegn KR og er eina íslenska liðið sem hefur lagt Vesturbæinga að velli í sumar. Þeir gulu áttu hins vegar aldrei möguleika í kvöld.

Fyrir leikinn höfðu Grindvíkingar aðeins fengið ellefu mörk á sig en í kvöld litu þeir ekki út eins besta varnarlið deildarinnar.

Vladan Djogatovic, markvörður Grindavíkur, hélt KR í skefjum framan af leik en hann kom engum vörnum við þegar Kennie Chopart skoraði fyrsta mark leiksins á 28. mínútu.

Djogatovic varði tvisvar vel frá Óskari Erni Haukssyni undir lok fyrri hálfleiks og kom í veg fyrir KR bætti við marki.

Seinni hálfleikurinn var nýhafinn þegar Atli Sigurjónsson kom KR í 2-0 með föstu skoti eftir frábæran undirbúning Kristins Jónssonar.

Á 55. mínútu töpuu Grindvíkingar boltanum á hættulegum stað. Kristján Flóki Finnbogason, sem lék sinn fyrsta leik fyrir KR í kvöld, slapp í gegn og sendi boltann á Pablo Punyed sem skoraði í autt markið.

Í næstu sókn á eftir minnkaði spænski framherjinn Primo muninn í 3-1 þegar hann nýtti sér mistök Finns Tómasar Pálmasonar og skoraði úr þröngu færi.

Djogatovic varði frá Kristjáni Flóka úr dauðafæri á 58. mínútu. Aðeins mínútu síðar skoraði Óskar Örn fjórða mark KR eftir fyrirgjöf Choparts. Þetta var 62. mark Óskars fyrir KR í efstu deild og hann jafnaði þar með markamet Ellerts B. Schram.

Varamaðurinn Sigurður Bjartur Hallsson minnkaði muninn í 4-2 á 72. mínútu með sínu fyrsta marki í efstu deild. KR-ingar voru afar ósáttir að markið fengi að standa og töldu að brotið hefði verið á Beiti Ólafssyni.

Þegar mínúta var til leiksloka skoraði Kristján Flóki fimmta mark KR og sitt fyrsta fyrir félagið eftir undirbúning besta manns vallarins, Kristins Jónssonar. Lokatölur 5-2, KR í vil.

Grindavík, sem hefur ekki enn unnið útileik í sumar, er í 9. sæti deildarinnar með 17 stig, einu stigi frá fallsæti.

Af hverju vann KR?

KR-ingar spiluðu frábæran fótbolta í kvöld og sennilega sinn besta sóknarleik á tímabilinu. Þeir tættu Grindavíkurvörnina í sig hvað eftir annað og voru ógnandi allan tímann.

Þrátt fyrir að vera með varnarsinnaða leikmenn hægra megin á vellinum réðu gestirnir ekkert við samspil Kristins og Óskars Arnar. Chopart var einnig óþreytandi og þeir Atli náðu vel saman á hægri kantinum.

Sóknarvopn KR-inga voru mörg og of beitt fyrir Grindvíkinga. Það er ekki á hverjum degi sem þeir skora tvö mörk á útivelli en þau dugðu skammt í kvöld.

Hverjir stóðu upp úr?

Kristinn átti nánast fullkominn leik hjá KR; lenti ekki í neinum vandræðum í vörninni og var svo síógnandi fram á við og lagði upp tvö mörk. Chopart skoraði mark og lagði annað upp.

Atli og Óskar Örn voru beittir á köntunum, Pablo átti sinn besta leik í sumar og frumraun Kristjáns Flóka lofar afar góðu.

Djogatovic var langbesti leikmaður Grindavíkur og kom í veg fyrir að liðið fengi á sig fleiri mörk.

Hvað gekk illa?

Vörn Grindavíkur hefur verið sterk í sumar en hún bilaði hressilega í kvöld.

Þrátt fyrir lítinn sóknarhug tókst Grindvíkingum einhvern veginn að skora tvö mörk gegn toppliðinu. KR-ingar hljóta að vera ósáttir við mörkin tvö sem þeir fengu á sig en þau skyggja þó varla á sigurgleðina.

Hvað gerist næst?

Næstu tveir leikir KR eru á útivelli; gegn nýliðum HK í 16. umferð Pepsi Max-deildarinnar á sunnudaginn og gegn FH í undanúrslitum Mjólkurbikarsins miðvikudaginn 14. ágúst.

Næsti leikur Grindavíkur er gegn Fylki í Árbænum á mánudaginn. Sunnudaginn 18. ágúst fær liðið svo HK í heimsókn.

Rúnar var ánægður með sóknarleik KR gegn Grindavík.vísir/bára
Rúnar: Frábær frammistaða hjá Kristjáni Flóka

Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, var skiljanlega sáttur eftir sigurinn á Grindavík.

„Ég er mjög ánægður með leikinn fyrir utan mörkin tvö sem við fengum á okkur. Þau voru klaufaleg. En skemmtanagildi leiksins var mikið. Við spiluðum skemmtilegan fótbolta, sköpuðum mörg færi og skoruðum fimm mörk,“ sagði Rúnar.

„Grindvíkingar buðu líka upp á fínar sóknir og skoruðu tvö mörk sem eru ekki búnir að gera oft í sumar. En þeir hafa gert það tvisvar gegn okkur.“

Fyrir leik kvöldsins höfðu Grindvíkingar aðeins fengið á sig ellefu mörk, fæst allra í Pepsi Max-deildinni. En KR-ingar opnuðu vörn gestanna hvað eftir annað í kvöld.

„Við vorum mjög vel undirbúnir og strákarnir leystu þetta vel. Við opnuðum þá oft og sköpuðum okkur færi strax. Þeir þurftu svo að koma framar á völlinn eftir því sem leið á leikinn og þá opnaðist meira fyrir okkur. Við spiluðum boltanum vel á milli okkar og færðum boltann vel á milli kanta.“

Kristján Flóki Finnbogason lék sinn fyrsta leik fyrir KR í kvöld. Hann stóð fyrir sínu, skoraði eitt mark og lagði upp annað.

„Mér fannst hann frábær, sérstaklega í ljósi þess að þetta var hans fyrsti leikur og hann er bara búinn að æfa 3-4 sinnum með okkur. Hann er klár leikmaður sem bætti sig mikið erlendis. Hann passar fullkomlega í það sem við erum að gera hér í Vesturbænum. Þetta lofar góðu fyrir framhaldið,“ sagði Rúnar.

Með sigrinum í kvöld náði KR 13 stiga forskoti á toppi deildarinnar.

„Þetta lítur vissulega vel út. En við verðum að halda okkur á jörðinni og einbeita okkur að næsta leik sem er gegn HK sem er kannski heitasta liðið í dag,“ sagði Rúnar að endingu.

Túfa var ósáttur við frammistöðu sinna manna og vill gleyma leiknum sem fyrst.vísir/daníel
Túfa: Þekkti ekki liðið mitt

Srdjan Tufedgzic, þjálfari Grindavíkur, segist varla hafa kannast við sitt lið í leiknum gegn KR í kvöld.

„Ég er rosalega svekktur með leikinn. Ég þekkti ekki liðið mitt. Yfirleitt þegar lið fá fimm mörk á sig verður þjálfarinn að taka það á sig og ég verð að gera það. Við verðum bara að reyna að gleyma þessum leik sem fyrst,“ sagði Túfa.

Hann sá fátt, ef eitthvað jákvætt, við frammistöðu Grindvíkinga í kvöld.

„Við reyndum allavega og skoruðum tvö mörk. En þetta var ekki eitthvað sem við erum þekktir fyrir. Þetta var svekkjandi því við höfðum ekki neinu að tapa. Við vorum að mæta besta liði landsins en við erum þeir einu sem höfum unnið þá í sumar. Ég vildi fá toppframmistöðu í kvöld en fékk hana ekki,“ sagði Túfa.

Hann viðurkenndi að hans menn hafi átt í vandræðum með sóknaraðgerðir KR í kvöld.

„Það klikkaði allt. Við vitum alveg hvernig KR spilar og þeir eru með besta lið landsins. En við spiluðum ekki á okkar getu,“ sagði Túfa að lokum.

Kristján Flóki hefði vart getað óskað sér betri byrjunar í búningi KR.mynd/kr
Kristján Flóki: Átti að vera vinnusamur og hjálpa liðinu

„Ég er mjög sáttur. Þetta var góður dagur,“ sagði Kristján Flóki Finnbogason eftir fyrsta leik sinn í búningi KR. Hann skoraði eitt mark í kvöld og lagði annað upp.

Kristján Flóki segir að það hafi verið þægilegt að koma inn í KR-liðið.

„Þetta er mjög flottur hópur og allir tóku vel á móti mér. Þetta hefur verið mjög auðvelt, allt frá fyrstu æfingu,“ sagði Kristján Flóki.

Hafnfirðingurinn var mjög líflegur í leiknum en markið lét bíða eftir sér. Það kom þó loks á 89. mínútu.

„Ég var fyrst og fremst að hugsa um að vinna leikinn. En ég hafði alltaf á tilfinningunni að markið myndi koma. Og það kom á endanum,“ sagði Kristján Flóki.

En hvaða skilaboð fékk hann frá Rúnari Kristinssyni, þjálfara KR, fyrir leikinn?

„Að gera það sem ég geri, vera vinnusamur og hjálpa liðinu,“ svaraði hann.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira