Enski boltinn

Þurfa að skoða það betur hvort treyjunúmer Wayne Rooney brjóti reglur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wayne Rooney á blaðamannafundinum þegar hann var kynntur sem væntanlegur leikmaður Derby County.
Wayne Rooney á blaðamannafundinum þegar hann var kynntur sem væntanlegur leikmaður Derby County. AP/Barrington Coombs
Enska knattspyrnugoðsögnin Wayne Rooney er á leiðinni aftur í enska boltann því hann mun spila með b-deildarliði Derby County eftir áramót.

Wayne Rooney ætlar að yfirgefa Bandaríkin eftir tímabilið þar sem hann hefur spilað undanfarið með DC United. Hann vildi komast aftur heim til Englands og hjá Derby fær hann bæði tækifæri til að læra þjálfun sem og að hjálpa liðinu að komast upp í ensku úrvalsdeildina.

Það eru enn fimm mánuðir í fyrsta leik Wayne Rooney með Derby en keppnistreyjan hans er strax til vandræða. Enska knattspyrnusambandið ætlar að skoða betur þá ákvörðun Derby County að láta Wayne Rooney fá treyju númer 32.





Ástæðan fyrir vandræðunum er að aðalstyrktaraðili Derby County er veðmálafyrirtæki með 32 í nafninu sínu. Þar erum við að tala um veðmálafyrirtækið Red32.

Samkvæmt reglum um auglýsingar þá má auglýsing á baki treyju leikmanna ekki vera stærri en 100 fersentimetrar. Á treyju Wayne Rooney verður talan 32 miklu stærri en það og undir númerinu er síðan sjálf auglýsingin frá 32Red. Þar með er talan 32 í raun orðin hluti af auglýsingu 32Red.

Það má líka búast við mikilli útbreiðslu á Derby-treyju Wayne Rooney enda mun koma hans vekja mikla athygli í Englandi og margar treyjur merktar Rooney, 32, og 32Red verða seldar og flestar þeirra til barna og ungmenna.

Bæði Derby og Neil Banbury, framkvæmdastjóri 32Red hafa staðfest það að fyrirtækið átti mikinn þátt í að Derby ráði við það að fá leikmann eins og Rooney til félagsins. Um leið og Wayne Rooney var úthlutað númerinu 32 fóru menn fljótlega að leggja saman tvo og tvo.

Enska sambandið mun þó ekkert gera í málinu fyrr en að Wayne Rooney byrjar að spila í janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×