Liverpool afgreiddi nýliðanna í fyrri hálfleik og eru komnir á blað

Anton Ingi Leifsson skrifar
Van Dijk og Salah í stuði.
Van Dijk og Salah í stuði. visir/getty
Evrópumeistararnir og silfurliðið frá því á síðustu leiktíð í ensku úrvalsdeildinni, Liverpool, byrja nýtt tímabil af krafti en þeir rúlluðu yfir nýliða Norwich í dag, 4-1.

Það sást strax frá fyrstu sekúndu að þetta yrði afskaplega langt kvöld fyrir þá gulklæddu en fyrsta markið skoraði Grant Hanley í eigið net og kom Liverpool yfir á 7. mínútu.

Tólf mínútum síðar var staðan orðinn 2-0 er Mohamed Salah skoraði eftir laglegt samspil við Roberto Firmino. Varnarleikur nýliðanna í versta falli barnalegur.

Ekki var varnarleikurinn betri í þriðja markinu er Virgil van Dijk fékk nánast frían skalla eftir hornspyrnu. Tim Krul réði ekkert við skalla Hollendingsins og Liverpool komið í 3-0.







Fjórða og síðasta mark Liverpool í fyrri hálfeik skoraði Divock Origi sem fékk tækifæri í byrjunarliði Liverpool. Fyrirgjöf rataði beint á kollinn á Origi sem kláraði færið vel. 4-0 í hálfleik.

Liverpool sótti og sótti í upphafi síðari hálfleiks en náði ekki að koma boltanum inn og það voru nýliðarnir sem skoruðu síðasta mark leiksins.

Eftir laglega sendingu Emiliano Buendia, brást finnska landsliðsmanninum Teemu Pukki, ekki bogalistinn framhjá Adrian sem hafði komið inn í mark Liverpool í fyrri hálfleik vegna meiðsla Alisson. Lokatölur 4-1.







Ljómandi fín byrjun hjá Liverpool í fyrsta leik tímabilsins en ljóst er að það er langt tímabil framundan hjá nýliðunum frá Norwich.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira