Erlent

Eld­flauga­til­raunir Norður-Kóreu halda á­fram í kjöl­far hernaðar­æfinga Suður-Kóreu og Banda­ríkjanna

Sylvía Hall skrifar
Norðurkóresku flugskeyti skotið upp. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti.
Norðurkóresku flugskeyti skotið upp. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. Vísir/Getty
Suðurkóreski herinn segir Norður-Kóreu hafa skotið tveimur óþekktum flugskeytum út á haf frá austurströnd landsins í kvöld, nærri borginni Hamhung. Að sögn yfirvalda í Suður-Kóreu fylgist herinn náið með aðstæðum og er í viðbragðsstöðu vegna skeytanna.

Ekkert lát virðist vera á vopnaprófunum norðurins en í síðustu viku var sambærilegum flugskeytum skotið upp í þrígang. Aðeins fjórir dagar eru liðnir frá síðasta skoti sem líklegt þykir að um hafi verið að ræða tvær stuttdrægar skotflaugar.

Talið er að vopnaæfingarnar séu mótsvar yfirvalda í Norður-Kóreu við fyrirhuguðum hernaðaræfingum Suður-Kóreu og Bandaríkjanna sem haldnar eru á ári hverju. Varnarmálaráðherra Suður-Kóreu staðfesti á mánudag að æfingarnar væru hafnar.  

Yfirvöld í Pyongyang hafa lýst yfir óánægju sinni með hernaðaræfingarnar og sögðu í yfirlýsingu að fyrri flugskeyti hafi verið til þess fallin að vara nágrannaríkið við afleiðingum þess ef ríkið lætur ekki af áætluðum heræfingum og vopnaþróunum.

Sjá einnig: Ekkert lát á eld­flauga­til­raunum Norður-Kóreu

Aðeins þrír dagar eru liðnir frá því að Donald Trump Bandaríkjaforseti sagðist hafa fengið annan „mjög fallegt bréf“ frá leiðtoga Norður-Kóreu, Kim Jong Un. Þann 30. júní síðastliðinn sammældust leiðtogarnir um að endurvekja kjarnorkuafvopnunarviðræður sínar á leiðtogafundi sínum.

Trump sjálfur þvertók fyrir á blaðamannafundi í gær að Norður-Kórea væri að prófa sig áfram með kjarnorkuvopn. Flugskeytin væru öll stuttdræg en hann væri þó ekki sáttur við vopnaprófanir Norður-Kóreu en þær brytu ekki í bága við fyrra samkomulag þeirra frá leiðtogafundi í Singapúr.

„Foringi Kim vill ekki bregðast mér með því að bregðast trausti mínu, það er of mikið í húfi fyrir Norður-Kóreu – möguleikar þeirra sem lands, undir stjórn Kim Jong Un,“ skrifaði Trump fyrr í mánuðinum á Twitter-síðu sinni. Hann sagði leiðtogann hafa góða og fallega sýn fyrir land sitt sem gæti aðeins orðið að veruleika með hjálp Bandaríkjanna undir sinni stjórn.

„Hann mun gera það rétta því hann er of klár til þess að gera það ekki, og hann vill ekki bregðast vini sínum, forseta Trump!“
Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.