Íslenski boltinn

„Þetta er óþolandi fullyrðing og hún er ekki sönn“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Þórir Hákonarson, fyrrum framkvæmdarstjóri KSÍ og starfsmaður hjá íslenskum Toppfótbolta, segir ásakanir Leikmannasamtaka Íslands um samningsbrot mjög alvarlegar og segir könnun samtakanna um launagreiðslur sé illa unnin.

Í gær birtist frétt um að ítrekað væri brotið á samningum leikmanna en um þetta ræddi Hafdís Inga Hinriksdóttir sem situr í stjórn Leikmannasamtakanna. Þórir vísar þessu á bug.

„Ég get ekki talað um hvernig þetta er í handboltahreyfingunni því ég þekki það minna. Ég þekki þetta mjög vel í knattspyrnunni,“ sagði Þórir í samtali við Guðjón Guðmundsson.

„Mér finnst þetta mjög alvarlegar ásakanir og fullyrðingar um það að félögin fari með leikmenn eins og rusl gagnist þeir ekki félaginu eins og því sýnist.“

„Þetta er óþolandi fullyrðing og hún er ekki sönn.“

Í morgun birtist svo frétt um könnun áðurnefnda leikmannasamtaka þar sem fjallað er um laun til íslenskra knattspyrnumanna. Þar kemur fram að þrír leikmenn á Íslandi séu með yfir þrjár milljónir á mánuði í laun.

„Það var könnun birt í dag og þetta tengist allt saman. Það eru örfá mál sem fara fyrir félagaskiptanefnd knattspyrnusambandsins á hverju ári. Það er hægt að telja það á fingrum annarar handar svo ekki er mikill ágreiningur þar.“

„Um þessi himinháu laun held ég að þessi könnun hafi verið illa unnin og hún er það. Það kemur augljóslega í ljós. Að leikmenn á Íslandi séu með yfir 3 milljónir á mánuði er fjarstæða,“ sagði Þórir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×