Erlent

Sonur Osama bin Laden talinn af

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Hamza bin Laden og Osama bin Laden.
Hamza bin Laden og Osama bin Laden. Samsett/Vísir
Hamza bin Laden, sonur stofnanda hryðjuverkasamtakanna Al-Kaída, Osama bin Laden, er fallinn. Þetta hafa fjölmiðlar vestanhafs eftir ónefndum bandarískum embættismönnum. Hamza var líkt og faðir sinn hluti af Al-Kaída samtökunum.

Fréttastofa NBC hefur eftir þremur embættismönnum að bin Laden sé fallinn, en greinir ekki frá því hvar eða hvenær hann lést, né heldur hvor Bandaríkjamenn hafi komið að andláti hans með einhverjum hætti.

Þegar Donald Trump var spurður út í hvort Bandaríkin hefðu upplýsingar um andlát bin Laden á blaðamannafundi í dag sagði hann einfaldlega

„Ég vil ekki tjá mig um það.“

Síðustu opinberu skilaboð bin Laden birtust á miðlum á vegum Al-Kaída. Þar kallaði hann eftir því að íbúar á Arabíuskaga gerðu uppreisn gegn núverandi stjórnvöldum þar.

Hamza bin Laden er talinn hafa verið fæddur í kring um 1989. Þá er talið að hann hafi verið að undirbúa sig undir að taka stjórnina innan Al-Kaída og leiða samtökin til „fyrri dýrðar,“ en samtökin hafa staðið höllum fæti á undanförnum árum, meðal annars þökk sé vexti samtakanna sem kenna sig við íslamskt ríki, ISIS.

Osama bin Laden féll í Pakistan þann 2. maí árið 2011 fyrir hendi sérþjálfaðra bandarískra hermanna, að skipan þáverandi Bandaríkjaforseta, Baracks Obama.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×