Umfjöllun og viðtöl: Valur 3-0 KR | Sigurhrinu KR-inga lokið

Gabríel Sighvatsson skrifar
vísir/bára

Valur sýndi ekki sínar bestu hliðar í kvöld þegar liðið tók á móti KR en náði engu að síður í 3 stig á heimavelli.

Valsliðið var þó öflugri aðilinn í kvöld og kom það engum á óvart að þær skyldu vinna leikinn en 3 mörk og hreint búr tala sínu máli.

KR var að spila sinn 3. leik á viku og hvíldu nokkra lykilmenn fyrir leikinn í kvöld. Þær vörðust meira og minna allan leikinn og Valsliðið lá á þeim.

Valsliðið vermir enn toppsætið í deildinni eftir sigurinn og Breiðablik fylgir í humátt með verra markahlutfall.

Af hverju vann Valur?
Valsliðið var einfaldlega miklu betri aðilinn í kvöld og það sást alveg. Þær voru í sókn nánast allan leikinn og var ekki mikið að slaka á bensíngjöfinni þó þær væru í forystu.

Frammistaðan var ekki neitt til að kvarta yfir, vörnin stóð vaktina vel og sóknin skoraði 3 mörk og þær hefðu hæglega getað skorað fleiri.

Hvað gekk illa?
KR-vörnin var hátt uppi og náði Valsliðið að nýta sér það í fyrri hálfleik þegar þær skoruðu tvö mörk eftir sendingar inn fyrir vörnina.

Ef KR hefði náð að koma í veg fyrir mörkin tvö í fyrri hálfleik hefði seinni hálfleikurinn getað orðið spennandi en sóknarleikur KR-ingar bar þess engin merki um að þær væru að fara að koma til baka.

Hverjar stóðu upp úr?
Hlín Eiriksdóttir skoraði 2 mörk í kvöld og er nú markahæst ásamst Berglindi Björg Þorvaldsdóttur í Breiðablik. Báðar eru þær með 11 mörk en Hlín var sífellt ógnandi í leiknum í kvöld og kláraði færin sín vel. Margrét Lára hefði getað skorað fleiri mörk í kvöld en hún fékk fullt af færum sem hún hefði eflaust skorað úr á öðrum degi.

Markmennirnir í leiknum fá líka hrós en Sandra Sigurðardóttir var traust í rammanum hjá Val og Ingibjörg Valgerisdóttir varði vel og gat lítið gert í mörkunum sem hún fékk á sig.

Hvað gerist næst?
Valur fer til Garðabæjar og sækir Stjörnuna heim. KR á næst leik við Fylki á sunnudaginn. Þar eru á ferð tvö lið sem eru í harðri botnbaráttu og verður æsispennandi.

Pétur Péturs: KR liðið orðið miklu betra
„Mér fannst þetta góður sigur hjá okkur. Við fengum ekki mark á okkur aftur og það er ég mjög ánægður með.” sagði Pétur Pétursson, þjálfari Vals, eftir 3-0 sigur á KR.

Valur var betri aðilinn í leiknum og fékk fullt af færum í dag en þær létu 3 mörk duga í kvöld.

„Við fengum nokkur tækifæri í viðbót til þess að skora en þegar upp er staðið þá er ég mjög sáttur við þetta.”

Valsliðið sýndi ágætis frammistöðu og þær voru aldrei líklegar til að láta sigurinn af hendi eftir að hafa komist í forystu.

„Mér fannst KR liðið vera erfitt, þær eru mjög skipulagðar og orðnar miklu betri heldur en þær voru í fyrri hluta móts. Það er erfitt að spila á móti þeim, þær eru taktískar miklu betri og líka líkamlega sterkari. Þannig að þetta var erfiður leikur samt sem áður.”

Valsliðið er enn á toppnum eftir sigurinn og þar vill Pétur og Valsliðið vera sagði hann að lokum.

Ragna Lóa: Skuluð muna þessi orð
Ragna Lóa Stefánsdóttir, þjálfari KR, var ekki að svekkja sig of mikið þó lið hennar hafi tapað 3-0.

„Ég var þokkalega ánægð með frammistöðuna. Ég veit ekki hvort sigurgöngunni lýkur, við ætlum náttúrulega að halda áfram að vinna fullt af leikjum.”

KR gerði þrjár breytingar á liðinu frá því að þær unnu Þór/KA í bikarnum um helgina en það er búið að vera mikið álag á liðinu.

„Við tókum þá ákvörðun að hvíla lykilmenn í kvöld og það hafði áhrif á spil liðsins. Þær sem komu inn fyrir okkar lykilmenn stóðu sig mjög vel. Það er mjög erfitt að spila 3 leiki á viku þannig að við tókum þessa afdrifaríku ákvörðun að hvíla nokkra. Það hefði verið gaman að geta mætt þeim með fullt lið því við erum búin að vera á blússandi ferð.”

„Við vissum að leikurinn í dag yrði erfiður og við ákváðum að hvíla leikmenn. Þær eru með geggjað lið og eru í toppbaráttu. Við vissum það alveg fyrirfram að við værum að fara að verjast og þetta yrði erfitt.”

Öll lið fyrir utan eitt sem voru fyrir neðan KR náðu í 3 stig í dag og KR er ennþá í mikilli fallbaráttu en Ragna er bjartsýn fyrir framhaldið.

„Næstu leikir eru mjög mikilvægir og eins og staðan er í dag þá erum við bara ennþá í botnbaráttu og við þurfum að ná stigum út úr næstu leikjum.”

„Við hengjum aldrei haus í KR. Við erum að fara að taka næstu leiki og eins og ég sagði þá ætlum við að verða bikarmeistararar og lenda um miðja deild og þið skuluð muna þessi orð.” sagði Ragna sigurviss að lokum.

Hlín: Ekki okkar besti leikur - Alltaf gaman að skora
„Ég er mjög sátt. Þetta var reyndar ekki okkar besti leikur en fínt að klára þetta örugglega og halda hreinu.” sagði Hlín Eiríksdóttir, leikmaður Vals og markaskorari, eftir sigur á KR.

„Það getur vel verið að þær séu þreyttar eftir bikarleikinn en ég held það skipti ekki öllu máli þegar komið er inn í leikinn. Við erum líka búin að spila mikið og ég veit ekki hvort það skipti máli en mér fannst við gera þetta ágætlega.”

Hlín sagði að þetta hefði ekki verið þeirra besta frammistaða en sigurinn var engu að síður sannfærandi og verðskuldaður og ekki hægt að biðja um mikið meira.

„Við vorum með yfirburði í leiknum, við héldum boltanum betur í fyrri hálfleik en sendingarnar stundum svolítið „sloppy.””

„Það er alveg hægt að biðja um fleiri mörk en það er kannski græðgi, við erum alveg sáttar.”

Hlín skoraði tvö mörk fyrir liðið í dag og er þar með orðin jafnmarkahæst í deildinni en hún segist ekki hugsa of mikið út í markakóngstitilinn.

„Ég er ekki mikið að hugsa um það en það er auðvitað gaman að skora svona mikið. Það er ekki eitthvað sem ég setti mér sem markmið að vinna þennan gullskó en að sjálfsögðu er það gaman.”

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.