Enski boltinn

Baðst afsökunar á því hvernig hans menn fóru með leikmenn Man. Utd í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Daniel James hjá Manchester United fékk oft að finna fyrir því í gær.
Daniel James hjá Manchester United fékk oft að finna fyrir því í gær. Getty/ Matthew Peters/
Leikur Tottenham og Manchester United átti að vera vináttuleikur milli tveggja liða að undirbúa sig fyrir komandi tímabil en það fylgdi lítið vinátta sumum tæklingum Tottenham manna í Shanghæ í gær.

Manchester United lét ekki þessar slæmu tæklingar mótherjanna stoppa sig og unnu 2-1 sigur í leiknum sem var hluti af International Champions Cup æfingamótinu.

Eftir leikinn baðst Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri Tottenham, líka afsökunar á hörðum leik sinna manna.





„Ég vil fyrir hönd minna leikmanna biðja leikmenn Manchester United afsökunar,“ sagði Mauricio Pochettino.

Daniel James, nýr eldfljótur leikmaður Manchester United, var sá sem fékk mest að finna fyrir því ekki síst frá Moussa Sissoko. Sissoko átti skilið rautt spjald þegar hann steig með tökkunum ofan á James sem hann hafði áður sparkað niður.

„Ég var svolítið pirraður í sumum atvikunum. Ég var ekki ánægður því stundum ertu of seinn og þá getur eitthvað slæmt gerst. Stundum verður þú að vera agressífur og spila af ástríðu en einbeitingin í þessum leikjum á að vera að byggja upp formið og þróa okkar spilamennsku,“ sagði Pochettino.

Ole Gunnar Solskjaer, kollegi Pochettino hjá Manchester United, gerði samt lítið úr grófum leik Tottenham manna.

„Þetta er keppnisíþrótt og við erum að undirbúa okkur fyrir deildarkeppnina. Þetta var ekkert tipl á tánum. Þú ferð í tæklingar. Við vorum ekki bara tæklaðir því við tækluðum líka. Mér fannst þetta vera mjög góður leikur,“ sagði Ole Gunnar Solskjaer.

Táningurinn Angel Gomes skoraði sigurmarkið tíu mínútum fyrir leikslok en Lucas Moura hafði áður jafnað metin eftir að Anthony Martial kom United í 1-0 í upphafi leiks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×