Erlent

Heilsa Navalní sögð ásættanleg

Kjartan Kjartansson skrifar
Navalní var handtekinn fyrir að hvetja til mótmæla í Moskvu um helgina.
Navalní var handtekinn fyrir að hvetja til mótmæla í Moskvu um helgina. Vísir/EPA
Alexei Navalní, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Rússland, verður útskrifaður af sjúkrahúsi síðar í dag og er heilsa hans sögð ásættanleg. Navalní var fluttur á sjúkrahús í gær eftir að hann sýndi einkenni bráðaofnæmis í fangelsi þar sem honum var haldið vegna mótmæla í Moskvu um helgina.

Ólíkum sögum fer af veikindum Navalní. Einn lækna hans segir mögulegt að eitrað hafi verið fyrir honum með óþekktu efni, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Læknir á sjúkrahúsinu sagði aftur á móti við Interfax-fréttastofuna í gær að Navalní hefði greinst með ofsakláða og hann væri á batavegi. Sjúkrahúsið segir nú að Navalní sé í „ásættanlegu ástandi“.

Navalní var dæmdur í þrjátíu daga fangelsi fyrir að hvetja til mótmæla í Moskvu um helgina sem stjórnvöld höfðu ekki veitt leyfi fyrir. Fleiri en þúsund mótmælendur voru handtekin um helgina.

Breska ríkisútvarpið BBC segir að um tuttugu manns, þar á meðal blaðamenn, hafi verið handteknir fyrir utan fangelsissjúkrahúsið þar sem Navalní var vistaður í gær.

Algengt er að stjórnarandstæðingar og gagnrýnendur rússneskra stjórnvalda láti lífið við grunsamlegar aðstæður. Bresk stjórnvöld saka Rússa um að hafa eitrað fyrir rússneskum fyrrverandi njósnara og dóttur hans í bænum Salisbury í fyrra. Eins er talið að Rússar hafi eitrað fyrir Alexander Litvinenko, rússneskum fyrrverandi leyniþjónustumanni, í London árið 2006.

Sergei Magnitskí, rússneskur endurskoðandi sem upplýsti um stórfelld fjársvik embættismanna, er talinn hafa verið barinn til ólífis í fangelsi árið 2009.


Tengdar fréttir

Nálægt 1.400 handteknir í gær eftir mótmæli í Moskvu

Aðgerðir yfirvalda gegn stjórnarandstæðingum hófust áður en mótmælin hófust í gær. Stjórnarandstöðuleiðtoginn Alexei Navalny var handtekinn síðasta miðvikudag og dæmdur í 30 daga fangelsi fyrir að boða til mótmælanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×