Erlent

Nálægt 1.400 handteknir í gær eftir mótmæli í Moskvu

Eiður Þór Árnason skrifar
Lögregla segir að um 3.500 mótmælendur hafi sést í gær en loftmyndir benda til þess að minnst 8.000 manns hafi mótmælt.
Lögregla segir að um 3.500 mótmælendur hafi sést í gær en loftmyndir benda til þess að minnst 8.000 manns hafi mótmælt. Vísir/AP
Nálægt 1.400 mótmælendur voru færðir í hald lögreglu eftir mótmæli í Moskvu í gær. Talið er að tala handtekinna mótmælenda þar í borg hafi hafi ekki verið hærri á þessum áratug.

Eftirlitshópurinn OVD-Info, sem fylgst hefur með handtökum lögreglu frá því árið 2011, segir að talan hafi verið komin upp í 1.373 snemma í dag. Yfirgnæfandi meirihluta þeirra var sleppt úr haldi síðar um daginn en 150 einstaklingar þurftu áfram að sitja fangageymslur.

Aðgerðir yfirvalda gegn stjórnarandstæðingum hófust áður en mótmælin áttu sér stað í gær. Stjórnarandstöðuleiðtoginn Alexei Navalny var handtekinn síðasta miðvikudag og dæmdur í 30 daga fangelsi fyrir að boða til mótmælanna.

Greint hefur verið frá því að Navalny hafi verið fluttur úr fangelsinu á sjúkrahús í gær vegna alvarlegra ofnæmisviðbragða. Að öðru leyti er óljóst hver orsök sjúkrahúsheimsóknar hans var.

Í gær safnaðist fólk saman til að krefjast þess að frambjóðendur stjórnarandstöðunnar fái að bjóða sig fram í stjórn borgarinnar.

Kosið verður um öll sætin í borgarstjórn Moskvu þann áttunda september til fimm ára. Borgin er nú undir stjórn flokksins Sameinað Rússland, sem er hliðhollur rússneskum stjórnvöldum í Kremlin.

Kjörstjórn í Moskvu hefur neitað að skrá nokkra frambjóðendur stjórnarandstöðunnar með þeim rökstuðningi að þeir hafi ekki náð að safna nógu mörgum gildum undirskriftum í tæka tíð. Frambjóðendurnir halda því þó fram að þeir hafi fullnægt skilyrðunum og að undirskriftir sínar séu ósviknar.


Tengdar fréttir

Meira en þúsund hand­teknir í Moskvu

Lögreglan í Moskvu hefur handtekið meira en þúsund manns sem söfnuðust saman á fjöldafundi til að mótmæla framgöngu stjórnvalda þar í landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×