Enski boltinn

Marko Arnautovic truflaði æfingar kvennaliðs West Ham

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marko Arnautovic vildi komast í peningana í Kína.
Marko Arnautovic vildi komast í peningana í Kína. Getty/Marc Atkins
West Ham er búið að losa sig við óánægða Austurríkismanninn Marko Arnautovic sem enska félagið seldi í vikunni til Kína fyrir 23 milljónir punda.

Eftir söluna er ýmislegt farið að koma í ljós um hegðun kappans á síðustu mánuðum sínum sem leikmaður West Ham liðsins.

Marko Arnautovic var í stjörnuhlutverki í sóknarleiknum hjá West Ham og skoraði 22 mörk í 65 leikjum. Hann hefur hins vegar viljað losna frá félaginu síðan að kínverska félagið Shanghai SIPG bauð fyrst í hann í janúar. Þá vildi West Ham ekki selja en lét loksins undan í sumar.

Marko Arnautovic vildi umfram allt komast í peningana í Kína og allt hegðunarmynstur hans breyttist. Hann fór fljótt úr því að vera hetja í augum stuðningsmannanna í að vera mjög óvinsæll.



Nýjustu sorgarfréttirnar af slæmri hegðun Marko Arnautovic koma í gegnum fyrrum leikmann kvennaliðs West Ham sem heitir Claire Rafferty.

Claire Rafferty sagði TalkSport hvernig Austurríkismaðurinn hefði truflað ítrekað æfingar kvennaliðsins þegar liðin voru að æfa á sama tíma.

„Ég held á endanum hafi West Ham fengið nóg af honum og hans slæma viðhorfi. Hann var alltaf að reyna að trufla okkar æfingar þegar hann var í kringum okkur,“ sagði Claire Rafferty.

„Við æfum á sama stað og karlaliðið en auðvitað á sitthvorum vellinum. Æfingavellirnir eru sitthvorum megin við leikvöllinn. Margoft var hann með stæla og leiðindi þegar við vorum að æfa,“ sagði Rafferty.

„Hann var þá að klára sína æfingu en um leið og hann gekk fram hjá okkur þá sýndi hann okkur ókurteisi og var með dónaskap,“ sagði Rafferty.

Marko Arnautovic ætti að brosa út að eyrum í Kína. Hann fylgir þar í fótspor Brasilíumannanna Oscar og Hulk og er með 250 þúsund pund í vikulaun sem gera tæpar 40 milljónir íslenskra króna.



Marko Arnautovic í leik á móti Íslandi á EM.Getty/Clive Mason



Fleiri fréttir

Sjá meira


×