Erlent

„Svörtu vestin“ mótmæla í París

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Mótmælandi heldur hér á yfirlýsingu hópsins.
Mótmælandi heldur hér á yfirlýsingu hópsins. Vísir/Getty
Hundruð óskráðra innflytjenda hafa brutu sér í dag leið inn í Panthéon-bygginguna í París í mótmælaskyni. Mótmælendur krefjast þess að fá að halda áfram til í Frakklandi.

Mótmælendurnir, sem að langstærstum hluta koma frá Vestur-Afríku brutu sér leið inn í bygginguna um hádegisbil. Byggingin var þá rýmd en hún er vinsæll viðkomustaður túrista sem heimsækja borg ástarinnar.

Mótmælendur héldu til í byggingunni um nokkurn tíma uns lögreglu tókst að koma þeim út.

Mótmælendahópurinn kallar sjálfan sig „Svörtu vestin“ en það er vísun til Gulu vestanna sem á síðustu misserum hafa mótmælt oft og mikið í Frakklandi og víðar.

Mótmælendur veifuðu pappírum, sungu og kröfðust þess að fá að ganga til viðræðna við forsætisráðherra Frakklands, Édouard Philippe, til þess að ræða stöðu landvistarleyfis þeirra.

Í yfirlýsingu frá hópnum er Svörtu vestunum lýst sem „hinum óskráðu, hinum raddlausu og hinum andlitslausu þegna franska lýðveldisins.“

„Við viljum ekki ræða við innanríkisráðherrann og hans starfsfólk lengur, við viljum tala við Édouard Philippe forsætisráðherra, strax!“ er meðal þess sem segir í yfirlýsingunni.

Á þriðja hundruð mótmælenda tók þátt í mótmælunum samkvæmt lögreglunni í París, en vitni og baráttuhópar segja lögregluna draga úr tölu mótmælenda sem þeir segja hafa verið nær 700. 37 voru handteknir að því er fram kemur í frétt BBC af málinu.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×