Enski boltinn

Vandræðalaust hjá Chelsea í Írlandi

Anton Ingi Leifsson skrifar
Frank Lampard er tekinn við félaginu sem hann lék svo lengi.
Frank Lampard er tekinn við félaginu sem hann lék svo lengi. vísir/getty
Chelsea lenti ekki í miklum vandræðum er liðið mætti írska úrvalsdeildarliðinu, St. Patrick's Athletic, í æfingarleik í dag. Lokatölur urðu 4-0.

Frank Lampard er tekinn við stjórnartaumunum hjá Chelsea og hann og lærisveinar hans eru nú á Írlandi. Þetta var annar æfingarleikur liðsins í ferðinni en liðið gerði jafntefli við Bohemians fyrr í vikunni.







Chelsea var, eins og búist var við, mun sterkari aðilinn og Michy Batshuayi fékk tækifæri í framlínunni. Hann þrumaði boltanum annars í slá eftir stundarfjórðung.

Fyrsta markið kom svo mínútu síðar er Mason Mount skoraði eftir sendingu Mateo Kovacic. Mount er tvítugur miðjumaður sem sló í gegn undir stjórn Lampard hjá Derby á síðustu leiktíð.

Chelsea bætti við öðru marki á 32. mínútu er vinstri bakvörðurinn Emerson tvöfaldaði forystuna en langskot hans lak í netið. 2-0 í hálfleik og gerði Lampard ellefu breytingar í hálfleik.







Rólegra var yfir leiknum í síðari hálfleik en þriðja mark Chelsea skoraði heimsmeistarinn Oliver Giroud. Hann afgreiddi þá góða fyrirgjöf Kenedy í netið. Skömmu fyrir leikslok var Giroud aftur á skotskónum og lokatölur 4-0.

Chelsea heldur nú til Japan en liðið mætir Kawasaki Frontale í æfingarleik á föstudaginn kemur. Í vikunni á eftir bíður svo fyrsti stóri leikurinn er liðið mætir Barcelona í æfingarleik, einnig í Japan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×