Erlent

Sak­sóknarar segja Ep­stein hættu­legan um­hverfi sínu

Eiður Þór Árnason skrifar
Lögmenn Epstein óskuðu eftir því að hann yrði settur í stofufangelsi, og fengi að fara heim í 77 milljón dollara stórhýsi sitt.
Lögmenn Epstein óskuðu eftir því að hann yrði settur í stofufangelsi, og fengi að fara heim í 77 milljón dollara stórhýsi sitt. Vísir/AP
Bandaríski milljarðamæringurinn Jeffrey Epstein, sem ákærður hefur verið fyrir mansal á tugum stúlkna sem hann misnotaði auk fleiri brota, verður ekki sleppt úr haldi gegn tryggingu að sinni. Þetta er niðurstaða dómara í New York.

Dómarinn sagðist þurfa meiri tíma til að íhuga hvort Epstein verði sleppt úr haldi gegn tryggingu. Saksóknarar í málinu segja að Epstein sé hættulegur umhverfi sínu og telja hættu á að hann reyni að flýja land ef honum verður sleppt út áður en réttarhöld hefjast í málinu. Af þeim sökum kröfðust þeir þess að Epstein yrði áfram í haldi fram að réttarhöldunum.

Saksóknararnir segja jafnframt að fleiri konur hafi haft samband við þá á síðustu dögum og sakað Epstein um að hafa misnotað sig þegar þær voru undir lögaldri.

Einnig hefur verið greint frá því að staflar af peningaseðlum, tugir demanta og útrunnið falsað vegabréf hafi fundist í húsleit á heimili hans eftir handtökuna þann 6. júlí síðastliðinn.

Lögmenn Epstein segja að hann hafi ekki brotið af sér eftir að hann játaði aðild sína að mansali ólögráða barns árið 2008, og að alríkisyfirvöld séu að svíkja tólf ára samkomulag þar sem þau féllust á að ákæra hann ekki fyrir slík brot.

Lögmennirnir segjast ætla að óska eftir því að málinu verði vísað frá dómi og að Epstein verði settur í stofufangelsi með rafrænu eftirliti fram að því að réttarhöld hefjast.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×