Erlent

Segir Ep­stein hafa nauðgað sér þegar hún var fimm­tán ára

Sylvía Hall skrifar
Jennifer Araoz ræddi reynslu sína við NBC Today í dag.
Jennifer Araoz ræddi reynslu sína við NBC Today í dag. Skjáskot

Jennifer Araoz var fjórtán ára gömul þegar hún var kynnt fyrir bandaríska milljarðamæringnum Jeffrey Epstein. Ung kona í kringum tvítugt hafði nálgast hana fyrir utan skóla hennar og kynnt hana fyrir Epstein undir því yfirskyni að hann vildi „hjálpa henni“.



Araoz hafði misst föður sinn tveimur árum áður og kveðst hafa verið „smá týnd“ í lífinu. Þegar konan nálgaðist hana og fór að bjóða henni í hádegisverði talaði hún vel um Epstein og sagði hann vera miður sín vegna fráfalls föður Araoz og að hann hefði áhuga á að hjálpa henni. Hann væri umhyggjusamur maður.



Þegar hún loks hitti Epstein gaf hann henni þrjú hundruð Bandaríkjadali og sagði það vera „smá til þess að hjálpa henni“ áður en hann bætti við að hann sæi um fólk sem honum þætti vænt um.

Hrósaði henni fyrir „náttúruleg brjóst“ 

Í sinni fyrstu heimsókn sagði Araoz Epstein frá draumum sínum um að verða leikkona á Broadway og sagði hann hana vera heppna að kynnast manni eins og sér. Hann gæti hjálpað henni að láta þá drauma rætast.



Í kjölfarið fór Araoz að heimsækja heimili Epstein í New York um það bil tvisvar í viku með konunni fyrsta mánuðinn þar sem þær voru í um það bil eina til tvær klukkustundir. Í hvert skipti gaf Epstein henni þrjú hundruð dali undir því yfirskyni að hann vildi hjálpa henni.



Misnotkunin hófst þó ekki fyrir alvöru fyrr en Araoz heimsótti hann í fyrsta skipti ein. Hann sýndi henni um húsið áður en hann leiddi hana inn í herbergi sem hann sagði vera sitt uppáhalds. Um var að ræða nuddherbergi þar sem veggirnir voru skreyttir með málverkum af nöktum konum.



Á bak við nuddbekkinn mátti svo sjá málverk af naktri konu með dökkt hár og lítil brjóst. Sagði Epstein konuna líkjast Araoz, sem þá var fjórtán ára gömul, og sagðist „fíla lítil brjóst“ áður en hann hrósaði henni fyrir hennar eigin brjóst.

Epstein (f.m.) þegar hann var handtekinn á Flórída árið 2008. Hann átti yfir höfði sér lífstíðarfangelsi fyrir brotin sem hann var sakaður um en saksóknarar felldu niður ítarlega ákæru gegn honum.AP/Uma Sanghvi/Palm Beach Post

Nudd sem varð að nauðgun 

Araoz segir Epstein hafa heilaþvegið sig og sannfært hana um að gefa sér nudd á meðan hún klæddist einungis nærfötum. Nuddið myndi svo enda með því að hann fróaði sér og gaf henni að lokum þrjú hundruð dali.



„Ég sé um þig, þú sérð um mig,“ sagði Epstein við Araoz eftir fyrsta nuddið. Hann hrósaði henni í hástert, sagði hana fallega og að hann hlakkaði til að hitta hana aftur.



Að sögn Araoz varð Epstein ágengari í hvert skipti. Hann hafi byrjað að grípa um brjóst hennar án leyfis og krafðist þess að hún myndi strjúka honum og klípa í geirvörturnar á honum.



Það var svo um það bil ári seinna að Epstein skipaði henni að klæða sig úr nærfötunum og setjast ofan á sig á meðan hún nuddaði hann því hann vildi „prófa eitthvað nýtt“. Henni hafi þótt það óþægilegt en þorði ekki öðru en að hlýða eftir að hann hafi ítrekað að hann elskaði hana og vildi sjá um hana.



Í þetta skiptið endaði nuddið með nauðgun. Araoz lýsir því að hún hafi verið skelfingu lostin og ekki vitað hvað hún ætti að gera. Hann hafi haldið henni niðri á meðan hann nauðgaði henni og stoppaði ekki þrátt fyrir að hún hafi grátbeðið hann um það.



Eftir árásina sagði Epstein henni að hún væri stórkostleg, henni liði stórkostlega og hún hafi ekki gert neitt rangt. Hún fór aldrei aftur til Epstein eftir þetta.

Hataði sjálfa sig

Þrátt fyrir að hafa aldrei hitt Epstein eftir þetta segir Araoz atvikið hafa markað sig mikið. Hún hætti í skóla til þess að forðast hverfið hans og þjáðist af miklum kvíða og fékk oft kvíðaköst.



„Ég eiginlega hataði sjálfa mig eftir þetta,“ sagði Araoz í viðtali við NBC og bætir við að henni hafi liðið eins og hún hafi verið heimskur krakki sem ætti að vita betur.



Araoz leitaði aldrei til lögreglu vegna málsins, hún hafi einfaldlega reynt að gleyma því og halda áfram að lifa sínu lífi. Hún játar að hún hafi forðast það að leita til lögreglu af ótta við að lenda sjálf í vandræðum.



„Ég var mjög hrædd við Epstein. Hann þekkti mjög mikið af valdamiklu fólki og ég vissi ekki hvað hann myndi gera mér, og ég var ekki viss um að nokkur gæti verndað mig.“



Araoz hefur nú ákveðið að leita til lögreglu og mun lögmaður hennar leggja fram kæru í næsta mánuði vegna málsins.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×