Enski boltinn

Steve Bruce nýr stjóri Newcastle United

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Steve Bruce.
Steve Bruce. Getty/Chris Vaughan
Steve Bruce er nýr knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarliðsins Newcastle United en þetta var staðfest á heimasíðu félagsins nú rétt í þessu.

Bruce gerir þriggja ára samning við Newcastle.

Hinn 58 ára gamli Bruce sagði upp störfum hjá enska B-deildarliðinu Sheffield Wednesday á dögunum og var því ljóst að hann væri að taka við Newcastle.

Rafa Benitez yfirgaf Newcastle í sumar eftir að hafa stýrt liðinu í 13.sæti ensku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð.

Stuðningsmaður félagsins til margra áraBruce er þrautreyndur í enska boltanum en hann hefur stýrt Sheffield United, Huddersfield, Wigan, Crystal Palace, Birmingham, Sunderland, Hull, Aston Villa og Sheffield Wednesday á 21 árs þjálfaraferli sínum.

Hann gerði garðinn frægan sem leikmaður með Manchester United þar sem hann varð þrisvar sinnum Englandsmeistari með Manchester stórveldinu en Bruce hefur ekki sankað að sér verðlaunum sem þjálfari til þessa.

Bruce var harður stuðningsmaður Newcastle í æsku en þetta verður í fyrsta sinn sem hann starfar fyrir félagið. Honum var hafnað sem ungum leikmanni af félaginu en fær nú tækifæri til að reyna sig hjá sínu uppáhalds liði.

Newcastle hefur leik í ensku úrvalsdeildinni sunnudaginn 11.ágúst næstkomandi þegar þeir fá Arsenal í heimsókn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×