Enski boltinn

Báðir Norðurlandabúarnir farnir frá Cardiff City

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Einar Gunnarsson og Kenneth Zohore eftir að Aron Einar var rekinn af velli í sínum síðasta leik með Cardiff City.
Aron Einar Gunnarsson og Kenneth Zohore eftir að Aron Einar var rekinn af velli í sínum síðasta leik með Cardiff City. Getty/Stu Forster

Íslenski landsliðsfyrirliðinn er ekki eini Norðurlandabúinn sem er á förum frá Cardiff City.

Aron Einar Gunnarsson kvaddi Cardiff City í vor eftir átta viðburðarík ár og samdi við Al-Arabi í Katar.

Cardiff City hefur núna samþykkt átta milljón punda tilboð West Bromwich Albion í danska framherjann Kenneth Zohore.

Kenneth Zohore er 25 ára gamall og verður nú kallaður heim úr Bandaríkjaferð Cardiff City liðsins.Zohore skoraði aðeins eitt mark og gaf eina stoðsendingu í 20 leikjum í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð sem er ekki mikið fyrir framherja.

Aron Einar Gunnarsson var líka með eitt mark og eina stoðsendingu hjá Cardiff á sínu síðasta tímabili með velska félaginu.

Zohore kemur í stað Jay Rodriguez sem West Bromwich Albion seldi til Burnley á dögunum.

Aron Einar Gunnarsson og Kenneth Zohore voru einu Norðurlandabúarnir í liði Cardiff City á síðustu leiktíð og nú er þeir báðir farnir.

Neil Warnock, knattspyrnustjóri Cardiff City, fékk ekkert fyrir Aron Einar sem fór á frjálsri sölu en mun væntanlega nota peninginn fyrir Kenneth Zohore í að kaupa nýjan framherja fyrri átökin í ensku b-deildinni í vetur.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.