Erlent

Banda­ríkin banna mjan­mörskum her­foringjum að koma til landsins vegna mann­réttinda­brota

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Min Aung Hlanig, æðsti herforingi mjanmarska hersins.
Min Aung Hlanig, æðsti herforingi mjanmarska hersins. getty/The Asahi Shimbun

Bandarísk yfirvöld hafa tilkynnt að æðsti herforingi mjanmarska hersins, þrír háttsettir herforingjar og fjölskyldur þeirra fái ekki leyfi til að koma til Bandaríkjanna. Bandaríkin hafa ásakað þá að hafa brotið mannréttindi Róhingja múslima. Frá þessu er greint á vef breska ríkisútvarpsins BBC.

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði að fullnægjandi sannanir væru fyrir hendi sem sýndu fram á að herforingjarnir hafi verið viðriðnir ofbeldinu sem Róhingja þjóðin var beitt árið 2017 og að sönnun væri fyrir því að ofbeldið væri enn í gangi.

Ríkisstjórn Mjanmar og her þess hafa fordæmt bönnin.

Stórfylkisforinginn Zaw Min Tun sagði í samtali við fréttastofu Reuters að rannsókn á ofbeldinu sem fór fram 2017 færi nú fram innan hersins.

Pompeo sagði hins vegar að bönnin hafi verið sett á vegna þess að æðsti foringi hersins, Min Aung Hlanig, hafi ákveðið að leysa úr haldi hermenn, sem höfðu verið sakfelldir fyrir að hafa myrt fólk í þorpinu Inn Din árið 2017, eftir aðeins nokkurra mánaða fangelsisvist.

Hermennirnir vörðu minni tíma á bak við lás og slá en tveir fréttamenn Reuters, Wa Lone og Kyaw Soe Oe, sem höfðu verið að rannsaka blóðbaðið. Fréttamennirnir tveir höfðu verið í fangelsi í meira en 16 mánuði, ákærðir fyrir að hafa komist yfir upplýsingar sem voru ríkisleyndarmál áður en þeim var sleppt úr haldi og náðaðir þann 6. maí síðastliðinn.

Pompeo sagði: „Við höfum enn áhyggjur af því að ríkisstjórnin í Mjanmar hefur ekki gert neitt til að gera þá sem brutu mannréttindi fólks ábyrga á gjörðum sínum og okkur berast enn fregnir af því að mjanmarski herinn brjóti mannréttindi.“

Hann sagði að Bandaríska ríkisstjórnin væri sú fyrsta til að bregðast við þessum mannréttindabrotum og láta hæst settu herforingjana finna fyrir því og að það væru til staðar „fullnægjandi upplýsingar um að þessir herforingjar hafi verið viðriðnir viðurstyggilegum mannréttindabrotum.“

Fleiri en 700 þúsund Róhingjar flúðu Mjanmar á meðan á herferðinni stóð árið 2017 en þaðan var greint frá fjöldamorðum, fjölda nauðgana og að þorp væru brennd til kaldra kola. Sameinuðu Þjóðirnar hafa sagt að rannsaka þurfi háttsetta aðila innan hersins vegna þjóðarmorðs.

Mjanmarska ríkisstjórnin hefur sagt að herinn hafi verið að bregðast við árásum vígasveita Róhingja. 


Tengdar fréttir

Heimurinn bregst börnum á átakasvæðum

Vopnaðar sveitir skirrast ekki við að fremja alvarleg brot gegn börnum án þess að gerendur séu dregnir til ábyrgðar, segir í fréttatilkynningu Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna. Framtíð milljóna barna í stríðshrjáðum löndum í hættu.

Fordæma fangelsun blaðamanna

Samtök bæði lögfræðinga og blaðamanna í Mjanmar afhentu Win Myint, forseta ríkisins, bréf í gær þar sem lýst var áhyggjum af sakfellingu og fangelsun tveggja blaðamanna Reuters.

Saka Mjanmar um skipulögð ódæði

Ódæðin snúast meðal annars um fjöldamorð, nauðganir og pyntingar og hafa yfirvöld Mjanmar verið sökuð um þjóðarmorð.

Stöndum vörð um mannréttindi

Það er af nógu að taka hjá Michelle Bach­elet, sem í dag flytur mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna sína fyrstu yfirlitsskýrslu frá því að hún var skipuð mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna í sumar.

Þjóðarmorð á Róhingjum í Mjanmar

Mjanmarskir herforingjar voru í vikunni sakaðir um þjóðarmorð. Sagðir hafa brennt Róhingja inni í húsum þeirra og tekið af lífi í hrönnum. Mjanmarska ríkið neitar sök og fyrrverandi friðarverðlaunahafinn sem leiðir ríkisstjórnina hefur sagt um falsfréttir að ræða.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.