Erlent

Áfrýjun blaðamanna í Mjanmar hafnað

Kyaw Soe Oo og Wa Lone.
Kyaw Soe Oo og Wa Lone. AP/Thein Zaw

Dómstóll í Mjanmar, eða Búrma, hefur hafnað áfrýjun tveggja blaðamanna Reuters sem voru dæmdir fyrir njósnir í fyrra. Þeir Wa Lone og Kyaw Soo Oo voru dæmdir í sjö ára fangelsi en sá dómur var fordæmdur víða um heim. Blaðamennirnir höfðu opinberað fjöldamorð öryggissveita Mjanmar þar sem tíu meðlimir Rohingjafólksins voru myrtir árið 2017. Það eru einu morðin sem yfirvöld ríkisins hafa viðurkennt þrátt fyrir að Sameinuðu þjóðirnar og fleiri segir yfirvöld í Mjanmar hafa framið þjóðarmorð.

Þeir Wa og Kyaw voru með opinber skjöl í fórum sínum þegar þeir voru handteknir. Þeir segja hins vegar að lögregluþjónar hafi látið þá fá skjölin og telja að þeir hafi fallið í gildru. Þá voru þeir að rannsaka fjöldamorð á Rohingjafólki en hundrað þúsundir þeirra flúðu Mjanmar vegna ofbeldis öryggissveita og vopnaðra hópa heimamanna.

Ritstjóri Reuters, Stephen J. Adler, segir niðurstöðuna til marks um óréttlætið gagnvart þeim Wa og Kyaw. Hann sagði þá vera á bak við lás og slá vegna þess að valdamenn í Mjanmar vildu þagga niður sannleikann.

Sameinuðu þjóðirnar hafa lagt til að hershöfðingjar Mjanmar verði rannsakaðir vegna ásakana um þjóðarmorð.

Sjá einnig: Her Búrma segist saklaus

Samkvæmt frétt BBC sagði dómari málinu að refsing blaðamannanna væri réttmæt. Þeir þurfa nú að áfrýja til Hæstaréttar Mjanmar en það ferli gæti tekið um sex mánuði.

Rohingjafólkið hefur búið í Mjanmar um langt skeið og hefur verið lýst sem þeim minnihlutahópi í heiminum sem býr við mestar ofsóknir. Talið er að þeir séu um 1,1 milljón og búa langflestir þeirra í Rakhine héraði í vesturhluta Mjanmar en stjórnvöld þar hafa ekki viðurkennt þau sem borgara. Rohingjafólkið er íslamstrúar en meirihluti íbúa landsins eru búddistar.

Rannsókn blaðamannanna var kláruð af samstarfsmönnum þeirra hjá Reuters og þykir hún framúrskarandi. Greinin ber heitið Fjöldamorð í Mjanmar og má finna hana hér.

Þar má finna vitnisburð fjölda fólks sem sagði öryggissveitir og heimamenn hafa brennt heilu þorpin, myrt fjölda manna og nauðgað konum.

Að endingu viðurkenndi ríkisstjórn Mjanmar að umrætt fjöldamorð hefði átt sér stað og dæmdi fjóra hermenn til tíu ára þrælkunarvinnu.


Tengdar fréttir

Fordæma fangelsun blaðamanna

Samtök bæði lögfræðinga og blaðamanna í Mjanmar afhentu Win Myint, forseta ríkisins, bréf í gær þar sem lýst var áhyggjum af sakfellingu og fangelsun tveggja blaðamanna Reuters.

Þjóðarmorð á Róhingjum í Mjanmar

Mjanmarskir herforingjar voru í vikunni sakaðir um þjóðarmorð. Sagðir hafa brennt Róhingja inni í húsum þeirra og tekið af lífi í hrönnum. Mjanmarska ríkið neitar sök og fyrrverandi friðarverðlaunahafinn sem leiðir ríkisstjórnina hefur sagt um falsfréttir að ræða.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.