Íslenski boltinn

Leikmaður KR byrjaði fyrri leikinn við Molde en var í gæslunni á þeim síðari í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Finnur Tómas Pálmason í leik á móti Breiðabliki í Pepsi Max deildinni í sumar.
Finnur Tómas Pálmason í leik á móti Breiðabliki í Pepsi Max deildinni í sumar. Vísir/Bára

Spútnikstjarna KR-inga í fótboltanum í sumar fann aðra leið til að hjálpa félaginu sínu í gær þegar hann gat það ekki inn á vellinum sjálfum.

Finnur Tómas Pálmason hefur slegið í gegn hjá toppliði KR í Pepsi Max deildinni í sumar en þessi átján ára strákur nýtti tækifærið sitt vel og hefur spilað mjög vel í miðri vörn Vesturbæjarliðsins.

Finnur Tómas Pálmason spilaði fyrri leikinn á móti Molde í Evrópudeildinni en hann meiddist í leiknum út í Noregi sem var fyrsti Evrópuleikurinn hans á ferlinum.

Finnur Tómas hitaði upp fyrir leikinn í gær en gat ekki spilað vegna meiðslanna.

KR-ingurinn og knattspyrnuáhugamaðurinn Sigurður Helgason vakti athygli á því að Finnur Tómas hélt áfram að hjálpa félaginu sínu þótt að hann gæti ekki hjálpað til inn á vellinum sjálfum.

Sigurður Helgason vakti athygli á starfi Finns Tómasar Pálmasonar á leiknum í gær með fésbókarfærslunni hér fyrir neðan.  

„Það eru mörg störfin á heimaleikjum! Finnur Tómas sem lék fyrri leikinn gegn Molde mættur í gæslu á seinni leikinn,“ skrifaði Sigurður.Finnur Tómas er nýbúinn að framlengja samning sinn við KR-liðið en það má þó ekki búast við því að gæslustörf hafi verið þar á blaði. Nýi samningurinn hans er út árið 2022 eða í rúm þrjú tímabil til viðbótar.

KR-ingar spila ekki fleiri Evrópuleiki á þessu tímabili en þeir eru með sjö stiga forystu á toppi Pepsi Max deildar karla og eru komnir í undanúrslitin í Mjólkurbikarnum. KR á því góða möguleika á því að vinna tvöfalt á fyrsta tímabili Finns sem fastamanns í liðinu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.