Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Grindavík - FH 0-0 | Lennon klikkaði á víti þegar Grindavík náði í stig

Smári Jökull Jónsson skrifar
Lennon klúðraði vítaspyrnu í Grindavík.
Lennon klúðraði vítaspyrnu í Grindavík. vísir/vilhelm
FH og Grindavík gerðu markalaust jafntefli í 10.umferð Pepsi Max deildar karla í knattspyrnu í kvöld. FH-ingar geta nagað sig í handarbökin því þeir misnotuðu vítaspyrnu í leiknum og höfðu þar að auki talsverði yfirburði lengst af.

Fyrri hálfleikur var fjörugur og þó svo að FH væri meira með boltann voru Grindvíkingar oft skeinuhættir. Þeir fengu besta færi hálfleiksins eftir mistök í FH vörninni en Alexander Veigar Þórarinsson nýtti færið ekki nægjanlega vel.

FH ógnaði með hornspyrnum og náðu nokkrum sinnum að spila sig afturfyrir varnarlínu Grindavíkur sem hélt þó betur og betur eftir því sem leið á hálfleikinn.

Í síðari hálfleik voru yfirburðir gestanna nær algerir. Heimamenn voru augljóslega særðir eftir 7-1 tapið í bikarleik liðanna á fimmtudag og hreinlega lögðu rútunni og FH var með boltann nær allan hálfleikinn.

Þeir sköpuðu sér nokkur færi en náðu ekki að nýta þau. Besta færið var vítaspyrna sem Jóhann Ingi dómari dæmdi réttilega þegar Björn Daníel Sverrisson var felldur í teignum en Vladan Djogatovic gerði mjög vel í að verja spyrnu Steven Lennon af punktinum.

Grindvíkingar fögnuðu stiginu í lokin en gestirnir gengu svekktir af velli.

Af hverju varð jafntefli?

Grindvíkingar voru eins og áður segir í sárum eftir tapið stóra á fimmtudaginn var. Þeir lögðu alla áherslu á vörnina og voru oftar en ekki með alla sína leikmenn á fyrsta þriðjungi vallarins.

FH skapaði oft hættu en Vladan Djogatovic í markinu var svo sannarlega betri en enginn í dag og varði það sem á markið kom. Í síðari hálfleik urðu gestirnir örvæntingarfyllri eftir því sem á leið og Grindvíkingar bökkuðu meira og meira. FH gekk illa að komast afturfyrir vörn heimamanna og fóru að reyna langskot sem gengu illa.

Skyndisóknir Grindvíkinga voru oft hættulegar en þeir virtust hreinlega stundum ekki hafa kraftinn í að klára þær almennilega því vissulega höfðu þeir tækifæri til.

Þessir stóðu upp úr:

Djogatovic í markinu var hetja heimamanna í dag, varði vítaspyrnu og stóð vaktina vel í rammanum. Hann er þó líklega ekki vinsæll í herbúðum Fimleikafélagsins því þar á bæ voru menn afar ósáttir með þann tíma sem Djogatovic tók í markspyrnur, aukaspyrnur og allt slíkt.

Félagarnir Marc Mcausland og Josip Zeba voru traustir að vanda í miðju varnarinnar hjá Grindavík.

Hjá FH var Guðmundur Kristjánsson öflugur í vörninni og Davíð Þór Viðarsson góður á miðjunni. Þá sýndi Halldór Orri Björnsson oft fínar rispur og kom pínulítið á óvart að hann skyldi vera fyrsti maðurinn til að vera tekinn útaf í síðari hálfleiknum.

Hvað gekk illa?

FH-ingar nýttu yfirburði sína ekki nægilega vel, þá sérstaklega eftir hlé. Grindvíkingar lögðu vissulega rútunni ansi vel en miðað við gæðin sem búa í þessu FH-liði þá býst maður við að þeir eigi svör við slíkum varnarleik.

Grindvíkingar nýttu skyndisóknir sínar illa og þá sérstaklega í seinni hálfleik. Þeir komust nokkrum sinnum í góðar stöður, meðal annars fjórir gegn tveimur varnarmönnum alveg í lokin en sendingarnar voru ekki nógu góðar. Orkan var hreinlega ekki til staðar.

Hvað gerist næst?

Grindvíkingar halda í Garðabæinn á föstudag þar sem þeir mæta heimamönnum í Stjörnunni. Það er spurning hvort þeir verði eitthvað búnir að bæta í hópinn þá en Tufa talaði um eftir leik að hann þyrfti leikmenn strax.

FH mætir Víkingi á heimavelli á mánudag og þarf á sigri að halda. Þeir dragast aftur úr toppliðunum með hverjum leiknum og þurfa þrjú stig í þessum leik, ekkert annað kemur til greina.

Tufa: Það er ekki vont þegar þú dettur, það er vont ef þú stendur ekki upp
Túfa var ánægður með karakter sinna mann í dag.vísir/daníel þór
„Eftir síðasta leik og áfallið sem við urðum fyrir þá, þá vildum við gera þetta fyrir okkar fólk og sýna stolt. Mínir strákar sýndu mikinn karakter að halda hreinu eftir að hafa fengið á sig sjö mörk í síðasta leik,“ sagði Srdjan Tufegdzig þjálfari Grindavíkur eftir markalausa jafnteflið gegn FH í Pepsi Max deildinni í kvöld.

„Það vantaði aldrei karakter og samstöðu í þetta lið og allt sem við erum búnir að gera hingað til er byggt á samstöðu og mikilli stemmningu. Við vissum að þarna kom leikur þar sem allir áttu slæman dag, ekki einn leikmaður eða tveir eða þjálfarinn heldur við allir. Það er ekki vont þegar þú dettur, það er vont ef þú stendur ekki upp og við stóðum upp í dag,“ sagði Tufa um karakter sinna manna.

FH-ingar höfðu talsverði yfirburði í dag úti á vellinum og í síðari hálfleik komust Grindvíkingar lítið í boltann en ógnuðu með skyndisóknum.

„FH liðið er með mikil gæði og ef við berum það saman við okkar lið þá verðum við að skoða hvað passar okkur best. Þetta passaði okkur best, að verjast vel. Við fengum tvö mjög góð færi til að taka mögulega öll stigin en þetta er bara okkar leikstíll sem við ætlum að halda áfram með,“ sagði Tufa en Davíð Þór Viðarsson fyrirliði FH lenti í smá orðaskaki við Tufa eftir leik þar sem hann virtist frekar ósáttur með upplegg heimamanna í leiknum í dag.

„Davíð er mikill fagmaður og ég ber mikla virðingu fyrir honum. Við vorum hér að spila á móti hvor öðrum og að sjálfsögðu eru menn heitir eftir leik. Hann er flottur leikmaður og geggjaður fyrir FH.“

Tufa hefur ekki farið leynt með það að hann vill styrkja lið Grindavíkur í félagaskiptaglugganum sem var að opna.

„Við erum búnir að missa tvo leikmenn, Rene Joensen og Patrick Nkoyi. Jón Ingason fer 1.ágúst í skóla í Bandaríkjunum þannig að við þurfum að minnsta kosti þrjá leikmenn til að vera á sama stað og fyrir mánuði. Við erum að leita og þurfum leikmenn sem fyrst. Í dag náum við bara rétt í hóp og þurfum styrkingu sem fyrst,“ sagði Tufa að lokum.

Ólafur: Eigum að vinna þennan fótboltaleik
Ólafur var svekktur með jafnteflið.vísir/daníel þór
„Það eru vonbrigði að vinna ekki þennan leik. Við höfðum algjöra yfirburði allan leikinn og það er súrt að ná ekki að skora mark,“ sagði Ólafur Kristjánsson þjálfari FH eftir markalausa jafnteflið gegn Grindavík í kvöld.

„Við hefðum mátt komast meira undir þá í seinni hálfleik, afturfyrir línuna þeirra, og koma með boltann þaðan fyrir og inn í teiginn. Færin sem við fáum eru fín, við fáum aragrúa af hornspyrnum og aukaspyrnum. Fáum þessa vítaspyrnu og það er hart að setja það á Steven Lennon sem hefur skorað mörg mörk úr vítaspyrnum. Auðvitað treystum við honum sem vítaskyttu.“

Spyrnuna fengu FH-ingar á 61.mínútu en Vladan Djogatovic í marki Grindavíkur varði ágæta spyrnu Lennon.

„Það er súrt að setja þetta á hann og ég vil alls ekki gera það. En við fáum ekki stærra færi en víti og við eigum að vinnan þennan fótboltaleik því við erum með algjöra stjórn á honum frá fyrstu til síðustu mínútu.“

Fyrri hálfleikur var fjörugur í kvöld en sá seinni heldur tíðindaminni en þá voru yfirburðir FH algerir en þeim gekk illa að finna glufur á vörn Grindavíkur. Srdjan Tufegdzig þjálfari heimamanna hafði augljóslega stoppað í götin eftir 7-1 tapið gegn FH í bikarnum á fimmtudag.

„Menn fóru engan vegin á flug eftir þann leik. Við erum þar í deildinni að við höfum ekki verið að fá úrslit að menn fóru ekkert á flug. Auðvitað skoruðum við þessi sjö mörk á móti þeim í bikarnum og einhverjir sem segja að það hefði átt að bremsa það af en þegar þú færð þetta augnablik sem við fengum þá heldur þú bara áfram.“

„Þessi leikur var algjörlega óháður hinum leiknum. Frábært hugarfar hjá liðinu fyrir þennan leik og það var framlag en það vantaði þetta sem klárar fótboltaleiki, að skora mörk.“

Ólafur gaf lítið upp um það hvort FH-ingar ætluðu að styrkja sig með nýjum leikmanna í félagaskiptaglugganum sem var að opna.

„Styrking kannski fyrst og fremst þannig að við þurfum að bæta ákveðna hluti í okkar leik. Þegar við erum með yfirburði að nýta þá yfirburði til að skora mark. Við þurfum að skora fleiri mörk og hvort að styrkingin komi innan frá eða annars staðar frá er ég lítið að einbeita mér núna eftir leik. Eins og þú heyrir er ég drullufúll að hafa ekki unnið þennan leik.“

Gunnar: Við stoppuðum í götin
Gunnar Þorsteinsson, fyrirliði Grindavíkur.vísir/daníel þór
Gunnar Þorsteinsson, fyrirliði Grindavíkur, var sáttur með stigið sem hans menn fengu í kvöld og það svar sem Grindvíkingar gáfu eftir tapið í bikarnum á fimmtudag.

„Ef við lítum á síðasta leik þá voru þetta stórstígar framfarir. Óli Kristjáns (þjálfari FH) var með „masterclass“ í leikgreiningu fyrir þann leik og nýtti sér veikleika okkar í ræmur enda opnuðu þeir okkur trekk í trekk fyrir utan að þá vantaði allt sem við stöndum fyrir. Við kipptum því í lag fyrir þennan leik.“

„Við stoppuðum í götin og náðum að loka svæðunum sem hægði á þeirra leik. Það var minna um opin færi kannski en þeir hefðu viljað.“

Barátta Grindvíkinga var til fyrirmyndar í dag og augljóst að þeir ætluðu að svara vel fyrir sig eftir tapið í bikarnum.

„Gamli skólastjórinn Luka Kostic sagði að öll lið eiga 1-2 virkilega slaka leiki á hverju tímabili og það var bara þannig, vonandi var þetta eini leikurinn í sumar. Við héldum uppteknum hætti í kvöld frá því sem við höfum verið að gera í deildinni.“

Sóknarlega eru Grindvíkingar hins vegar veikir og þurfa styrkingu þar fyrir framhaldið.

„Ég held við séum komnir með eitt mark í síðustu fimm leikjum þannig að við þurfum aðeins að skoða það en það horfir vonandi til betri vegar.“


Tengdar fréttir

Tufa: Það er ekki vont þegar þú dettur, það er vont ef þú stendur ekki upp

„Eftir síðasta leik og áfallið sem við urðum fyrir þá, þá vildum við gera þetta fyrir okkar fólk og sýna stolt. Mínir strákar sýndu mikinn karakter að halda hreinu eftir að hafa fengið á sig sjö mörk í síðasta leik,“ sagði Srdjan Tufegdzic, þjálfari Grindavíkur, eftir markalausa jafnteflið gegn FH í Pepsi Max deildinni í kvöld.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira