Erlent

SÞ segja þörf á rannsókn

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Michelle Bachelet
Michelle Bachelet
Það er mikilvægt að varpa ljósi á dauða venesúelska sjóherskafteinsins Rafaels Acosta, sem lést í haldi venesúelskrar lögreglu á laugardag, og draga hina ábyrgu í málinu fyrir dóm. Þetta sagði Michelle Bachelet, mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna, í gær en lögmaður Acostas sagði skjólstæðing sinn hafa dáið vegna pyntinga lögreglu.

Acosta var handtekinn á miðvikudag í síðustu viku, sakaður um að leggja á ráðin um að myrða Nicolás Maduro forseta. Hann mætti fyrir herdómstól á föstudag en féll í yfirlið áður en réttarhöldin hófust. Acosta var því næst færður á spítala þar sem hann lést degi síðar.

„Ég hvet stjórnvöld til þess að láta gera ítarlega rannsókn, þar með talið krufningu samkvæmt alþjóðlegum stöðlum, sem er bæði óháð og gegnsæ. Þetta er lykilatriði svo hægt sé að varpa ljósi á hvað kom fyrir hann og til þess að fullnægja réttlætinu,“ sagði Bachelet í yfirlýsingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×