Íslenski boltinn

Víkingar ekki gert tilboð í Óttar Magnús

Anton Ingi Leifsson skrifar
Óttar Magnús á landsliðsæfingu.
Óttar Magnús á landsliðsæfingu. vísir/vilhelm
Haraldur Haraldsson, framkvæmdarstjóri knattspyrnudeildar Víkings, segir ekkert til í því að Víkingur hafi gert tilboð í framherja Mjällby, Óttar Magnús Karlsson, eins og greint var frá í dag.

Milos Milojevic, fyrrum þjálfari Víkinga, er nú þjálfari Mjällby en hann sagði við sænska fjölmiðla í dag að Víkingar hefðu gert tilboð í framherjann.

Þegar Vísir sló á þráðinn til Haraldar nú undir kvöld kom hann að fjöllum er hann var spurður út í ummælin.

„Milos segir alltaf svo margt,“ sagði Haraldur í samtali við Vísi í dag. En er eitthvað til í þessu að Víkingur hafi boðið í Óttar Magnús?

„Ég get ekki staðfest það, nei. Ég hef lítið meira um það að segja og veit ekki hvað hann er að gaspra,“ sagði framkvæmdarstjórinn í Víkinni.

En er á döfinni hjá Víkingum að sækja framherjann í júníglugganum sem er opin út allan mánuðinn?

„Ég held ekki. Ég held að hann ætli bara að vera úti og sé ekkert að koma heim. Hann æfði með okkur í fríinu en hann er farinn aftur út og ætlar að vera þar. Ég veit ekki betur.“

Óttar Magnús lék með Víkingum tímabilið 2016. Þá skoraði hann sjö mörk í tuttugu leikjum í Pepsi-deildinni en hefur síðan þá leikið í atvinnumennsku, með misgóðum árangri.

Víkingur er komið í undanúrslit Mjólkurbikarsins þar sem þeir mæta Breiðablik en liðið situr í níunda sæti Pepsi Max-deildarinnar með ellefu stig.

Uppfært 20.47: Milos segir á Twitter í kvöld að hann hafi ekki greint frá neinu tilboði. Það hafi tvö íslensk lið sýnt Óttari áhuga en ekkert tilboð hafi komið inn á borð Mjållby. Hann baðst afsökunar á sinni slæmu sænsku.






Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×